Farið fram á innágreiðslu frá sveitarfélögunum

Í gær fóru Björn formaður félagsins og Ásgrímur upplýsingafulltrúi og afhentu persónulega öllum svei…
Í gær fóru Björn formaður félagsins og Ásgrímur upplýsingafulltrúi og afhentu persónulega öllum sveitarstjórum eða staðgenglum þeirra á félagssvæðinu eftirfarandi bréf til að koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Vert er að minnast á að skrifstofa Hörgársveitar var lokuð vegna sumarleyfa og því fengu þeir bréfið í tölvupósti en búið var að móttaka það.

Í gær fóru Björn formaður félagsins og Ásgrímur upplýsingafulltrúi og afhentu persónulega öllum sveitarstjórum eða staðgenglum þeirra á félagssvæðinu eftirfarandi bréf til að koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Einnig fór félagið fram á það að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu sem starfa eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.

Björn segir að fram hafi farið ágætis spjall um stöðuna við þau sem tóku á móti bréfinu. Nú verði beðið eftir viðbrögðum sveitarfélaganna og að þau svör verði sett inn á heimasíðu félagsins um leið og þau berast.

Vert er að minnast á að skrifstofa Hörgársveitar var lokuð vegna sumarleyfa og því fengu þeir bréfið í tölvupósti en búið var að móttaka það og því fengu öll sveitarfélögin á svæðinu eftirfarandi bréf í gær. 

Akureyri 2. júlí 2019 

Efni: Staðan í kjaramálum félagsmanna Einingar-Iðju sem vinna hjá Akureyrarbæ og öðrum sveitarfélögum.

Eining-Iðja vill koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu.

Viðræður hafa staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar sl. og er búið að halda nokkra fundi. Mikið ber á milli og vísaði SGS deilunni til sáttasemjara þann 28. maí 2019. Síðan þá er búið að halda tvo fundi, ekkert gengið og deilan í hörðum hnút og þá sérstaklega varðandi lífeyrismál. Næsti fundur hjá Ríkissáttasemjara verður ekki fyrr en 21. ágúst nk.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og félög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september nk. Samið hefur verið um innágreiðslu upp á kr. 105.000 fyrir 100% vinnu. Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir SGS hvort slíkt standi okkar félagsmönnum til boða en formaður samninganefndar sveitarfélaganna sagði nei þar sem búið væri að vísa deilunni til Sáttasemjara.

Miðað við þetta er ljóst að okkar félagsmenn verða þeir einu af starfsmönnum sveitarfélaganna sem ekki fá slíka greiðslu. Það er von félagsins að forráðamenn sveitarfélaga sjái hag í því að hafa starfsmenn sína ánægða en mismunun sem þessi mun ekkert gera nema að efla barráttuandann í þeirri kjarabaráttu sem framundan er.

Því fer Eining-Iðja fram á það að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu sem starfa eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.

Um 40% þeirra sem Starfsgreinasamband Íslands semur fyrir er hér á Eyjafjarðarsvæðinu.

Bréf þetta fer á öll sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu.

Með von um jákvæð viðbrögð.

F.h. Einingar-Iðju

____________________________________

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju