Fyrr á árinu ákvað stjórn félagsins að kaupa sex glænýjar íbúðir á Eirhöfða 7 í Reykjavík. Á sama tíma var ákveðið að selja fjórar íbúðir félagsins í Ásholti og í Sóltúni í Reykjavík.
Eirhöfði 7 er enn í byggingu og fær félagið íbúðirnar afhentar í lok nóvember. Þá á eftir að leggja gólfefni á þær og gera tilbúnar í leigu. Auglýst verður er nær dregur hvenær þær far í útleigu.
Íbúðirnar fjórar sem voru seldar verða afhentar nýjum eigendum í lok september. Þar sem þrjár af þessum fjórum íbúðum eru notaðar sem sjúkraíbúðir var ákveðið að nýta eina íbúð félagsins í Álalind sem sjúkraíbúð þar til nýju íbúðirnar verða teknar í notkun. Einnig var samið við AFL starfsgreinafélag um aðgang að íbúð á þeirra vegum fyrir okkar félagsfólk og þá getum við bent félagsfólki á að vera í sambandi við Sjómannafélag Eyjafjarðar til að kanna með lausar íbúðir, en þá leigir viðkomandi beint af sjómannafélaginu á þeirra verðskrá.
Nánar um Eirhöfða 7
Um er að ræða eina fjögurra herbergja, þrjár þriggja herbergja og tvær tveggja herbergja íbúðir. Fimm íbúðanna eru á fjórðu hæð og ein á þriðju hæð, allar í húshluta C. Bílakjallari er undir húsinu.
Þrjár verða notaðar sem orlofsíbúðir og þrjár verða nýttar sem sjúkraíbúðir. Þannig að með þessum breytingum er félagið að bæta við tveimur orlofsíbúðum og verða því alls í boði átta slíkar á höfuðborgarsvæðinu. Áfram verða í boði þrjár sjúkraíbúðir.
Allar nánari upplýsingar um Eirhöfða 7 má finna hér