Félagsmenn Einingar-Iðju, hafið þökk fyrir!

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, vill þakka öllum þeim fjölmörgu félagsmönnum sem tóku þátt í undirbúningi og atkvæðagreiðslu um nýja kjarasamninginn á almenna vinnumarkaðinum.

„Eins og ég hef áður sagt þá byggist árangur í svona vinnu á samstöðu, það gerist ekki með því að örfáir einstaklingar sjái um málið. Eining-Iðja hóf snemma undirbúning fyrir samningana, bæði með fjölmörgum fundum og stórri könnun á meðal félagsmanna. Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem þar komu að, en hátt í 2.000 félagsmenn tóku þátt í mótun kröfugerðar. Einnig vil ég þakka öllum þeim félagsmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni um samningana, í okkar félagi var hún með besta móti, eða um 23% á meðan meðaltalið var tæplega 13%. Við getum verið afskaplega stolt af þessari þátttöku og hún sýnir að öflugt trúnaðarmannakerfi og þessi góða tenging við grasrótina í félaginu skiptir öllu máli.

Ég neita því ekki að heilt yfir hefði ég viljað sjá betri þátttöku því samningurinn var vel kynntur fyrir fólki og það var einfalt að greiða atkvæði. Ég hef heyrt hjá félagsmönnum að þeir séu sáttir við samninginn en jafnframt hafa sumir bent á að þeir væru alveg komnir með nóg af þeirri gríðarlegu fjölmiðlaumfjöllum sem búin væri að vera í kringum samningana og getur það að hluta til skýrt þessa dræmu þátttöku, svona heilt yfir. Ég sjálfur fagna allri umræðu um þessi mál en auðvitað eru skoðanir misjafnar,“ segir Björn.

Aðspurður um framhaldið sagði Björn að næsta verkefni væri að ganga frá nýjum kjarasamningum við ríki og sveitarfélög. „Vonandi fara þær viðræður á flug sem fyrst.“