Fjarfundur -Rétta leiðin að heilsteyptum vinnustöðum

Vert er að benda á áhugavert fjarfundarerindi núna í hádeginu, miðvikudaginn 9. september, milli kl. 12:30 og 13:15.

Undanfarna áratugi hafa kröfur um hagkvæmni orðið ráðandi bæði á almennum markaði og innan hins opinbera þar sem meiri þjónustu er krafist fyrir minni kostnað. Til að bregðast við þessum kröfum hafa fyrirtæki og stofnanir í síauknum mæli útvistað verkefnum í nafni hagræðingar. Á þetta til dæmis við um þrif, húsvörslu, öryggisþjónustu og bókhald. Vinnustaðir eru þannig klofnir niður í einingar sem jafnvel lítill samgangur er á milli. David Weil,prófessor við Heller School Brandeis háskólann, hefur fjallað ítarlega um bæði hagræn og samfélagsleg áhrif þess að kljúfa vinnustaði niður með þessum hætti. Á næsta veffundi Vörðu, ASÍ og BSRB mun Weil fjalla um niðurbrotna vinnustaði (e. fissured workplaces). Weil var skipaður af Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, sem stjórnandi WHS (The Wage and Hour Division) deildar innan Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna.
 
Fundarstjóri er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
 
Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, ASÍ og BSRB standa fyrir röð af hádegisfyrirlestrum um réttu leiðina út úr kreppunni. Á fundunum er fræðileg umfjöllun fléttuð saman við reynslu af skipulögðu starfi verkalýðshreyfinga og annarra almannasamtaka.
 
Fundirnir fara fram í gegnum Zoom og eru öllum opnir. Boðið er upp á túlkun yfir á íslensku og til að nýta hana þarf að smella á lítinn hnött sem birtist í stikunni og velja túlkun. Hægt er að velja „mute orginal sound“ til að heyra eingöngu í túlknum.