Formannafundur SGS í Reykjanesbæ

Dagana 7. og 8. september sl. funduðu formenn aðildarfélaga SGS á Hótel Keflavík í Reykjanesbæ. Um var að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins voru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Tryggvi Jóhannsson, varaformaður Einingar-Iðju, og Gunnar Magnússon, ritari félagsins, sátu fundinn fyrir hönd félagsins.

Meðal dagskrárliða var kynning frá Verkefnastofu starfsmats, en starfsmatskerfi sveitarfélaganna hefur verið mikið til umræðu innan raða SGS undanfarið. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, kynnti niðurstöður sérvinnslu á stöðu félagsfólks aðildarfélaga SGS. Þá kom Ástráður Haraldsson, nýr ríkissáttasemjari, og ræddi sína sýn á embættið og þær hugmyndir og markmið sem hann hefur um starfið. Að vanda fengu umræður um kjaramál sinn sess á fundinum og ýmis brýn mál tekin til umfjöllunar og afgreiðslu.

Fundurinn samþykkti ályktun þar sem skorað er á Reykjavíkurborg og aðra aðila er að málinu koma að tryggja flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll til framtíðar. Völlurinn gegnir lykilhlutverki gagnvart íbúum á landsbyggðinni sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu og aðra opinbera þjónustu til höfuðborgarinnar. Öryggi fólks og trygg tenging landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis ætti að vera í forgrunni þegar teknar eru ákvarðanir er lúta að flugöryggismálum. Lesa má ályktun fundarins í heild sinni hér.