Fræðsludagar SGS í Fjallabyggð

í dag og á morgun stendur Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins. Fræðslan fer að þessu sinni fram í sal Einingar-Iðju í Fjallabyggð og eru þar nú samankomin tæplega 30 fróðleiksfúsir fulltrúar frá félögum um land allt. Fjórir fulltrúar frá Einingu-Iðju fóru á fræðsludagana, Anna Júlíusdóttir, Ásgrímur Örn Hallgrímsson, Helga Níelsdóttir og Margrét Jónsdóttir. 

Dagskráin er fjölbreytt og sett saman samkvæmt óskum þátttakenda. Núna er Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, að flytja erindi er kallast Hátt verðlag á Íslandi. Hver er ástæðan? Hvað er hægt að gera?  Að loknu erindi Auðar mun María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur í vinnustaðaeftirliti ASÍ, fjalla um innustaðaeftirlit,  mannsal  og launaþjófnaður.  Þá mun Rannveig Gústafsdóttir kynna rannsóknarverkefni sitt Reynsla erlendra kvenna af íslenskum vinnumarkaði og stéttarfélögum. Í lok dags verður til umræðu sameiginleg málefni aðildarfélaga SGS og starfið fram undan.  Árni Steinar Stefánsson, sérfræðingur SGS, mun hleypa umræðunni af stað en undir þessum lið eru þátttakendur beðnir um að taka upp mál sem þau vilja ræða við aðra fulltrúa, samræmingu verklags, miðla því sem vel er gert í starfi skrifstofanna o.s.frv.

Kristján Már Magnússon, sálfræðingur, mun opna morgundaginn með erindi sínu er heitir  „Hvernig getum við átt við erfiða aðila sem leita til okkar“. Að því loknu mun Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, fjalla um stöðuna á vinnumarkaði.

Þetta er í sjötta skipti sem SGS stendur fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk stéttarfélaganna.