Fráfarandi formenn kvaddir á þingi SGS

F.v. Björn, Signý, Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Kolbeinn.
F.v. Björn, Signý, Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Kolbeinn.

Í lok fyrsta þingdags SGS voru formlega kvaddir þrír formenn sem nýverið hafa látið af formennsku í sínu félagi, þau Kolbeinn Gunnarsson, Björn Snæbjörnsson og Signý Jóhannesdóttir. Þau eiga öll yfir 40 ára starf að baki innan verkalýðshreyfingarinnar.

Kolbeinn Gunnarsson lét af störfum sem formaður Hlífar í apríl 2022 eftir að hafa gegnt formennsku í 20 ár og verið virkur í starfi SGS. Áður en hann tók við formennsku starfaði Kolbeinn á skrifstofu félagsins og sem trúnaðarmaður en í heildina hefur Kolbeinn verið virkur í verkalýðsmálum í yfir 40 ár.

Björn Snæbjörnsson lét af formennsku hjá Einingu-Iðju í apríl 2023 eftir að hafa gegnt formennsku í félaginu 31 ár, en í heildina hefur Björn starfað í yfir 40 ár fyrir félagið. Björn hefur verið virkur í starfi SGS frá upphafi og lét af störfum sem formaður sambandsins á síðasta þingi eftir að hafa gegnt því embætti frá árinu 2012 og þar á undan sem varaformaður.

Signý Jóhannesdóttir lét af formennsku hjá Stéttarfélagi Vesturlands í apríl 2023 eftir 15 ár í starfi en Signý hefur starfað á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar í yfir 40 ár, m.a. sem formaður Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir SGS í gegnum tíðina.

Á vef SGS segir að Starfsgreinasamband Íslands þakkar þeim Kolbeini, Birni og Signýju kærlega fyrir samstarfið í gegnum árin.