Fréttir af samningamálum

Eins og fram hefur komið skipuðu aðilar á opinbera vinnumarkaðnum sérstakan vinnuhóp til að ræða vaktavinnu í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður. Markmið hópsins er að leggja fram heildstæðar breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu sem taki á núverandi fyrirkomulagi og bregðist við margvíslegum vandamálum sem eru í því.

Vinnuhópurinn er skipaður fulltrúum SGS, BSRB, BHM, FÍH af hálfu launafólks og fulltrúum samninganefnda ríkis, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, af hálfu atvinnurekenda. SGS hefur á undangengnum vikum gagnrýnt nokkuð vinnubrögðin hjá hópnum en undanfarnar vikur hefur orðið breyting þar á. Samninganefnd SGS hefur verið kölluð saman til fundar á morgun, þriðjudaginn 28. janúar, til að fara yfir hugmyndir hópsins og hvar á vegi vinnan er stödd.

Ríkissáttasemjari hefur boðað viðræðunefnd SGS og samninganefnd ríkisins til formlegs fundar hjá sér síðdegis þriðjudaginn 28. janúar. Er það í kjölfar þess að SGS vísaði samningaviðræðum við ríkið til sáttasemjara í síðustu viku eins og kunnugt er.