Fulltrúaráðsfundur Alþýðusambands Norðurlands 2025

Góð mæting var á fundinn þar sem fjölmörg áhugaverð erindi voru í boði.
Góð mæting var á fundinn þar sem fjölmörg áhugaverð erindi voru í boði.

Í gær, miðvikudaginn 24. september, fór fram fulltrúaráðsfundur Alþýðusambands Norðurlands (AN) á Illugastöðum í Fnjóskadal. Slíkur fundur er haldinn annað hvert ár, þ.e. þegar þing sambandsins fer ekki fram. Eining-Iðja átti rétt á að senda þrjá fulltrúa og sátu fundinn formaður og varaformaður ásamt upplýsingafulltrúa félagsins, þau Anna Júlíusdóttir, Tryggvi Jóhannsson og Ásgrímur Örn Hallgrímsson.

Fjölbreytt dagskrá var í boði og mættu nokkrir fyrirlesarar á fundinn. Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri Farsældar - Akureyri, reið á vaðið með fyrirlesturinn Farsæld barna þar sem hann fjallaði m.a. um farsæld barna sem byggðamál og farsældarráð, en í október í fyrra var skrifað undir tímamótasamning um stofnun svæðisbundinna farsældarráða í öllum sveitarfélögum landsins og ráða verkefnastjóra til að leiða undirbúning að stofnun slíkra ráða í hverjum landshlutum fyrir sig. Næst var Bryndís Elfa Valdimarsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, sem fjallaði um Jafnréttisstofu í erindinu Jafnrettisbarátta á tímamótum - er þetta ekki komið? Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, sagði frá fyrirhugaðri uppbyggingu Háskólasamstæðu í Skagafirði.  Sesselja Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA, var með fyrirlestur sem bar nafnið Ég er bara svona. Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé, kynnti starfsemi setursins. Að lokum fjallaði Tryggvi Jóhannsson, varaformaður Einingar-Iðju og formaður stjórnar Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum, um stöðuna á orlofsbyggðinni.

Miklar og góðar umræður urðu um öll erindi dagsins.

Minning
Á fundinum bað fundarstjóri fundarmenn um að rísa úr sætum og minnast varaformanns Byggiðnar og starfsmanns félagsins á Akureyri sem lést í júlí eftir baráttu við erfið veikindi. Heimir Þorleifur Kristinsson var varaformaður félagsins frá 2008, eða síðan ákveðið var að sameina Trésmiðafélag Reykjavíkur og Félag byggingamanna í Eyjafirði, þar sem hann var áður formaður. Heimir sá um skrifstofu Byggiðnar í Alþýðuhúsinu á Akureyri og sinnti þar daglegri þjónustu við félagsmenn á starfssvæði félagsins á Norðurlandi, allt til hinsta dags. Samhliða hlutverki sínu og störfum fyrir Byggiðn sinnti hann auk þess fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið, m.a. var hann fulltrúi Byggiðnar í Alþýðusambandi Norðurlands. 

Nánar um Alþýðusamband Norðurlands
Starfssvæði Alþýðusamband Norðurlands er Norðurland og er hlutverk þess að vinna að alhliða hagsmunum aðildarfélaga og félagsmanna þeirra. Aðildarfélög AN eru: 

  • Aldan, stéttarfélag 
  • Eining-Iðja 
  • Byggiðn, Félag byggingamanna 
  • Félag málmiðnaðarmanna Akureyri 
  • Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni 
  • Framsýn, stéttarfélag 
  • Samstaða 
  • Sjómannafélag Eyjafjarðar 
  • Sjómannafélag Ólafsfjarðar 
  • Verkalýðsfélag Þórshafnar 
  • Þingiðn