Fyrsta dyravarðanámskeiðið sem SÍMEY kemur að

Á þriðja tug þátttakenda voru á dyravarðanámskeiðinu
Á þriðja tug þátttakenda voru á dyravarðanámskeiðinu

Í síðustu viku lauk sex kvölda dyravarðanámskeiði sem SÍMEY og Eining-Iðja héldu í samstarfi við Lögregluna á Norðurlandi eystra. Tuttugu og þrír sátu námskeiðið sem var í formi fyrirlestra og verklegra æfinga – samtals fimmtán klukkustundir.

Þetta var í fyrsta skipti sem SÍMEY kemur að skipulagningu og framkvæmd dyravarðanámskeiðs, en það er ætlað starfandi dyravörðum, þeim sem ætla að starfa við dyravörslu, starfsfólki hótela og veitingahúsa sem t.d. vinnur á næturvöktum.

Síðustu áratugi hefur Eining-Iðja haldið dyravarðanámskeið í samstarfi við lögregluna en með samningi við Einingu Iðju nýverið hefur SÍMEY tekið að sér að skipuleggja og halda utan um þessi námskeið og höfðu Ingunn Helga Bjarnadóttir og Kjartan Sigurðsson verkefnastjórar umsjón með þeim fyrir hönd SÍMEY.

Dyravarðanámskeið er forsenda starfsleyfis sem dyraverðir fá útgefið af hendi lögregluembættanna í landinu. Á námskeiðinu er farið í fjölmarga hluti sem er dyravörðum nauðsynlegt að kunna skil á og koma þeim að gagni í starfi.

Sem fyrr segir var námskeiðið bæði í formi fyrirlestra og verklegra æfinga. Fyrirlesarar komu frá tryggingarfélagi, Lögreglunni á Norðurlandi eystra, Slökkviliði Akureyrar og Einingu-Iðju og fjölluðu þeir um tryggingar í starfi, áfengislög, reglugerð og leyfi vegna áfengisveitinga, fíkniefni, skoðun skilríkja og samskipti dyravarða og lögreglu, brunavarnir, reglugerð um löggæslu á skemmtunum, borgaralega handtöku og réttindi og skyldur. Þá annaðist Rauði krossinn á Akureyri kennslu í slysahjálp og í júdósalnum í KA-heimilinu var farið yfir sjálfsvörn og handtökur.

Framvegis mun SÍMEY hafa yfirumsjón með dyravarðanámskeiðunum á þessu svæði. Tímasetning næsta  námskeiðs hefur ekki verið ákveðin en mögulega verður það á vorönn, ef þess gerist þörf, en að öðrum kosti verður það haldið haustið 2020.