Á vef Stjórnarráðsins segir að Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Um er að ræða samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins og hélt nefndin sinn fyrsta fund þann 5. maí sl. Auk félags- og húsnæðismálaráðherra eiga þrír ráðherrar fast sæti í nefndinni: Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.
Verkefni samstarfsnefndarinnar er að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði og skal nefndin afhenda félags- og húsnæðismálaráðherra tillögu sína innan árs frá Alþingiskosningum. Jafnframt skal nefndin afhenda ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði.
Nefndin er skipuð á grundvelli laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðinn. Breytingarnar á lögunum tóku gildi þann 1. janúar 2025.
„Ríkisstjórnin er að grípa til öflugra aðgerða til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi, mansali og félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Samstarfsnefndin er kjörinn vettvangur fyrir samtal milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðsins um hvernig við náum árangri í þeirri mikilvægu baráttu,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Til viðbótar við þá ráðherra sem að framan eru nefndir er samstarfsnefndin þannig skipuð:
Starfsmaður samstarfsnefndarinnar er Áshildur Linnet, sérfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu.
Fram kemur á vef stjórnarráðsins að ekki er greidd sérstök þóknun af hálfu ráðuneytisins fyrir setu í samstarfsnefndinni.