Gallup könnun félagsins - nöfn vinningshafa

Björn formaður afhenti Kristjáni Tryggva vinninginn. Að sjálfsöfðu var hugað vel að sóttvörnum og gr…
Björn formaður afhenti Kristjáni Tryggva vinninginn. Að sjálfsöfðu var hugað vel að sóttvörnum og grímur einungis teknar niður í örskotsstund á meðan smellt var af.

Nýlega framkvæmdi Gallup könnun um ýmis atriði sem snerta kjör og aðstæður félagsmanna Einingar-Iðju og AFLs starfsgreinafélags. Könnunin var líka happdrættismiði því allir sem tóku þátt gátu unnið veglega vinninga. Í bréfinu sem þátttakendur fengu var lukkunúmer. Búið er að draga og voru nöfn eftirfarandi félagsmanna Einingar-Iðju dregin út. 

  • Tveir vinningar að upphæð kr. 150.000, eitt stk. á hvort félag: Kristján Tryggvi Sigurðsson.
  • Tveir vinningar að upphæð kr. 50.000, eitt stk. á hvort félag: Ólöf Ásdís Kristjánsdóttir.
  • Fjórir vinningar, vikudvöl í orlofsíbúðum félaganna. Tvö stk. á hvort félag: Agnar Kristinn Pétursson og Margrét Árnadóttir. 

Þegar Kristján Tryggvi mætti á skrifstofu félagsins á Akureyri til að ná í vinninginn þá sagði hann að það væri alveg sjálfsagt mál að taka þátt í könnun sem þessari. „Ég veit að það skiptir miklu máli fyrir þá sem eru að senda út svona kannanir að fá góða svörun og því ákvað ég að taka þátt. Það borgaði sig greinilega, bæði fyrir félagið og mig. Það er nú ekki slæmt að fá svona glaðning fyrir að gefa sér smá tíma til að svara þessari könnun,“ sagði Kristján mjög sáttur með vinninginn. 

Í ár lentu einnig 20 þátttakendur strax í happdrættispotti, 10 frá hvoru félagi, voru í raun dregnir út áður en þeir svöruðu. Hinir heppnu vinningshafar fengu tilkynningu um það um leið og þeir höfðu lokið við að svara könnuninni, um var að ræða kr. 15.000 inneign á debetkorti sem þeir nálguðust á skrifstofu félagsins á Akureyri. Í ár tóku allir tíu þátt þannig að allir vinningarnir gengu út, ólíkt síðustu árum. T.d. í fyrra þá svöruðu aðeins sjö þeirra sem dregin voru út sem þýddi því miður að þrír félagsmenn Einingar-Iðju misstu af því að fá vinning upp á kr. 15.000 og sex árið 2018. Það getur borgað sig að taka þátt! 

Eining-Iðja óskar vinningshöfum til hamingju.