Gallup könnunin - launaseðlar

Undanfarin ár hefur Eining-Iðja fengið Gallup til að gera umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir meðal félagsmanna. Þessar kannanir eru sambærilegar könnunum sem nokkur önnur félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa látið gera. Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar ársins.

Í könnuninni voru margir þættir kannaðir, m.a. var spurt um launaseðla, en öllum launagreiðslum skal fylgja launaseðill. Við hvetjum félagsmenn til að skoða hann vel og ef þú telur að launaseðill þinn sé ekki réttur eða þú skilur hann ekki, hafðu þá samband við okkur. Geymdu launaseðilinn, með honum getur þú sannað rétt þinn. 

  • 95,7% sögðust fá launaseðil um hver mánaðamót. Langflestir fá seðilinn á rafrænan hátt eða 76,7% aðspurðra.
  • Þegar spurt var hvort viðkomandi skoðaði launaseðilinn sinn sögðust 8,7% sjaldan eða aldrei gera það, 13,9% stundum og 77,4% alltaf eða oftast. Í fyrra voru niðurstöðurnar 12% sjaldan eða aldrei gera það, 12,4% stundum og 75,5% alltaf eða oftast.
  • Einnig var spurt um hvort viðkomandi skildi launaseðilinn sinn. 77,8% sögðust skilja hann vel en 8,9% illa sem eru aðeins betri niðurstöður en í fyrra. Helst var það yngra fólkið sem skilur hann illa og eins þeir sem starfa sem stuðningsfulltrúar og skólaliðar og þeir sem sinna veitinga- og þjónustustörfum. 

Niðurstöðurnar eru afar gagnlegar fyrir félagið því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör og bættan aðbúnað við vinnu. Einnig þarf að gæta þess að áunnin réttindi séu virt. 

Stjórn félagins vill þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins í ár.