Hækkanir á fasteignagjöldum í mörgum tilfellum langt umfram 2,5%

Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman breytingar á fasteignagjöldum milli áranna 2019 og 2020 í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Breytingarnar eru reiknaðar í krónum miðað við meðal fasteigna- og lóðamat í ákveðnum hverfum hjá þeim sveitarfélögum sem eru til skoðunar en fasteignagjöld eru í flestum tilfellum lögð á miðað við fasteigna- og lóðamat.

Gjöld á 100 fm íbúð í fjölbýli hækka mest á Sauðárkróki um 14,93% eða 36.991 kr. en næst mest á Egilsstöðum um 11,06% eða 29.515 kr. Ef miðað er við 200 fm einbýli hækka gjöldin mest á Egilstöðum, 10,3% eða um 46.756 og næst mest í Glerárhverfi á Akureyri um 7,7% eða 27.000 krónur. Þessar hækkanir eru langt umfram þau loforð sem gefin voru í tengslum við lífskjarasamningana en Samband íslenskra sveitarfélaga lýsti stuðningi við þau með tilmælum til sveitarfélaga um að gjaldskrárhækkanir vegna ársins 2020 yrðu ekki umfram 2,5%.

Fasteignagjöldin lækkuðu mest í Keflavík sé miðað við 100 fm fjölbýli, -9,61% eða 28.722 kr. og næst mest í Njarðvík, -3,88% % eða um 10.223 kr. Sé miðað við 200 fm einbýli lækkuðu fasteignagjöldin mest á Ísafirði, -9,3% eða um 38.969 kr. og næst mest í Njarðvík, -4,4% eða um 24.364 kr.

14,9% hækkun á fasteignagjöldum í fjölbýli á Sauðárkróki
Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, fráveitugjöld, vatnsgjöld og sorphirðugjöld. Þau eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati nema sorphirðugjöld sem eru föst krónutala. Breytingar á fasteigna- og lóðamati hafa því áhrif á hina endalegu álagningu fasteignagjalda og er í samburðinum hér tekið tillit til þess. Þá eru vatnsgjöld og fráveitugjöld í sumum tilfellum reiknuð sem föst krónutala auk gjalds á hvern fermetra íbúðarhúsnæðis. Erfitt getur verið að átta sig á heildarbreytingu sveitarfélaga á fasteignagjöldum þar sem breytingar á hverjum lið vega misþungt. Þannig eru fasteignaskattar t.d. yfirleitt mun hærri krónutala en vatnsgjöld og vega hækkanir á fasteignasköttum því þyngra en á vatnsgjöldum. Til að varpa betra ljósi á hvernig breytingar sveitarfélaga á fasteignagjöldum milli ára koma út í heild hafa þær verið teknar saman og reiknaðar út í krónutölum fyrir mismunandi tegundir húsnæðis.

Þegar allir liðir fasteignagjalda hafa verið lagðir saman og upphæðir frá árinu 2019 bornar saman við 2020 má sjá að fasteignagjöld hækka mest á Sauðárkróki, 14,93% eða 36.991 kr. miðað við 100 fm í fjölbýli. Rekja má hækkanir til þess að fasteigna- og lóðamat hækkaði mikið í fjölbýli á Sauðárkróki á milli ára á meðan álagningarprósentur sveitarfélagsins stóðu í stað auk þess sem sorphirðugjöldin hækkuðu. Næst mest hækka fasteignagjöld fyrir 100 fm. fjölbýli á Egilsstöðum, 11,06% eða 29.515 kr. en svipaða sögu er að segja þaðan þar sem fasteignamat hækkaði en álagningarprósentur voru ekki lækkaðar til að stemma stigu við hækkunum. Miklar hækkanir voru einnig á Reyðarfirði, 8,6%, Akureyri, 6,35- 6,57% og á Völlunum Hafnafirði, 6,20%.

Sjá nánari upplýsingar um breytingar á álagningarprósentum og á fasteigna- og lóðamati (töflur).


Smella á mynd til að stækka hana.

Fasteignagjöld miðað við 100 fm í fjölbýli lækkuðu um -9,61% eða 28.722 kr. í Keflavík og um 3,88% eða 10.223 kr. í Njarðvík. en þar var álagningarprósenta fasteignaskatts lækkuð auk álagningarprósentu vatnsgjalda og fráveitugjalda. Þá lækkuðu fasteignagjöld einnig í Kópavogi, um -2,14% í Austurbænum og -0,93% í Lindum og Sölum en sökum þess að lóðaleiga er reiknuð á annan hátt þar en í öðrum sveitarfélögum var ekki unnt að birta krónutölur fyrir Kópavog. Álagningarhlutfall fasteignagjalda og fráveitugjalda var lækkað í Kópavogi milli ára auk þess sem sorphirðugjöld lækkuðu um 6,79%. Fasteignagjöld fyrir 200 fm einbýli lækkuðu einnig í miðbæ Reykjavíkur ( frá tjörn að Snorrabraut) um 0,64% og -0,61% á Selfossi.

10,3% hækkun á fasteignagjöldum í sérbýli á Egilsstöðum
Í 200 fm. sérbýli hækkuðu fasteignagjöld mest á Egilsstöðum, 10,3% en það gerir 46.756 kr. hækkun. Næst mest hækkuðu þau í Glerárhverfi, Akureyri, 7,7% eða 27.000 kr. og jafn mikið í Vestmannaeyjum, 7,7% eða um 26.060 krónur. Eins og fyrr sagði hækkaði fasteignamat á Egilsstöðum á sama tíma og álagningarprósentur stóðu í stað auk þess sem sorphirðugjöld voru hækkuð sem útskýrir þessar hækkanir. Á Akureyri stóðu álagningarprósentur fasteignaskatta og lóðaleigu sömuleiðis í stað. Fasteigna- og lóðamat hækkaði á meðan vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld hækkuðu. Í Vestmannaeyjum lækkaði álagningarprósenta fasteignaskatts auk þess sem vatnsgjöld lækkuðu. Þrátt fyrir það hækkuðu fasteignagjöld í Vestmanneyjum þar sem þar sem álagningarhlutfall lóðaleigu stóð í stað á meðan lóðamat hækkaði mikið auk þess sem álagningarprósenta fráveitugjalda lækkaði ekki þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignamati. Þá voru sorphirðugjöld einnig hækkuð í Vestmannaeyjum.


Smella á mynd til að stækka hana.

Mestar lækkanir á fasteignagjöldum í sérbýli eru á Ísafirði (eldri byggð), -9,3% sem gerir 38.969 kr. lækkun. Það má rekja til 51% lækkunar á álagningarprósentu vatnsgjalda, lækkun sorphirðugjalda um 4,54% og lítilla hækkana á fasteigna- og lóðamati í sérbýli. Næst mest lækkuðu fasteignagjöld í Njarðvík, -4,4% eða 24.364 kr. og í Keflavík, -3,7% eða 21.473 kr. Þá lækkuðu gjöld í sérbýli í miðbæ Reykjavíkur (frá tjörn að Snorrabraut), -1,6% og í Austurbæ Kópavogs, -0,7%. Í töflunum hér að ofan má sjá hvernig fasteignagjöld breytast milli áranna 2019-2020 sé miðað við 100 fm fjölbýli og 200 fm sérbýli.

Útsvarsprósentur stóðu í stað milli ára hjá öllum sveitarfélögum.

Til að glöggva sig betur á hvað liggur að baki breytingunum, þ.e. hvaða gjöld það voru sem hækkuðu og lækkuðu og hvort og/eða hversu mikið sveitarfélögin breyttu álagningarprósentum sínar, má nálgast töflur með þeim upplýsingum í viðhenginu fyrr í fréttinni.

Um úttektina
Fasteignagjöld eru lögð á allar fasteignir af sveitarfélögum landsins. Þau skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld. Í flestum tilfellum er upphæð gjaldanna ákveðið hlutfall af fasteigna- og lóðamati eignarinnar og hefur breyting á fasteignamati því áhrif á upphæð þeirra að öðru óbreyttu. Í ákveðnum tilfellum eru þau innheimt sem fast gjald og/eða gjald á fermeter. Sorphirðugjöld eru þó föst krónutala í öllum sveitarfélögum. Upplýsingar um fasteignagjöld má finna á heimasíðum sveitarfélaganna.
Fasteignagjöld eru ekki sérlega gegnsæ og erfitt og tímafrekt getur verið að átta sig á hversu miklar breytingar eru í krónum talið. Þá getur verið flókið að bera saman fasteignagjöld milli sveitarfélaga vegna þess hversu mikill munur er á fasteignamati. Álagning sveitarfélaganna er til að mynda töluvert hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu en þar er fasteignamat einnig mun lægra og þarf þess vegna ekki að þýða að fólk á landsbyggðinni borgi meira en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Til að gefa sem skýrasta mynd reiknar verðlagseftirlitið breytingar á fasteignagjöldum í krónum talið miðað við meðal fasteignamats fyrir ákveðnar stærðir af íbúðarhúsnæði í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Með þessum hætti má sjá raunhæf dæmi af því hvernig fasteignagjöld breytast milli ára.

Fasteignagjöld voru reiknuð fyrir íbúðir í ákveðnum stærðarflokki og eiga fasteignagjöld í dæmunum hér því við um fleiri íbúðir en þær sem eru af þessari stærð. Þannig eru meðal fasteignagjöld fyrir 100 fm íbúð t.d. reiknuð af öllum 95-105 fm íbúðum í ákveðnu bæjarfélagi/hverfiog fasteignagjöld fyrir 200 fm sérbýli er meðaltal af íbúðum á stærðarbilinu 195-205 fm. Við útreikningana er stuðst við gögn frá Þjóðskrá um meðalfasteignamat og breytingar á fasteignamati milli ára.