Íbúðin á Spáni - opið fyrir umsóknir á netinu

Síðustu tvö sumur hefur félagið boðið upp á orlofskost á Spáni fyrir félagsmenn og voru viðtökurnar það góðar að ákveðið var að bjóða upp á þessa íbúð enn á ný næsta sumar. Um er að ræða efri sérhæð í nýjum íbúðarkjarna í Lomas de Cabo Roig hverfinu sem er í um 30 mín. fjarlægð frá Alicante, á svæði sem heitir Casa Tarife. Í boði verða níu leigur, tvær vikur í senn, og verða skiptidagar á þriðjudögum. Verð fyrir tvær vikur verður kr. 105.000, en nú er innifalið í því þrifagjald sem áður var borgað á staðnum. Leiga hefst 26. maí og mun standa til 29. september.

ATHUGIÐ! Umsókn þarf að skila til félagsins fyrir 1. febrúar 2020, rafrænt í gegnum félagavefinn. (Ferð í orlofshús og svo umsókn. Það eina sem er í boði núna er þessi íbúð, en hægt er að velja nokkur tímabil.)

Úthlutun verður lokið nokkrum dögum síðar. Hægt er að skrá sig inn á félagavefinn með rafrænum skilríkjum eða veflykli. Ef þú hefur ekki virkjað rafræn skilríki eða fengið veflykil frá félaginu þá þarftu að sækja um aðgang að félagavefnum og fá sendan veflykil heim.

Íbúðin er mjög vel búin, gólfhiti er í húsinu og loftkæling í báðum herbergjum og stofu. Rúmgóð verönd er fyrir framan húsið og þaðan er gengið upp í íbúðina sjálfa sem er öll á einni hæð. Svalir eru út frá stofu og eldhúsi og þaðan er síðan gengið uppá stórar einka þaksvalir sem eru yfir öllu húsinu, þar eru sólbekkir, útihúsgögn, gasgrill, kolagrill, markísa og æðislegt útsýni. Fallegur sundlaugargarður er inná milli húsanna og hverfið er mjög rólegt og gott.

ATH! Gott getur verið að vera með bílaleigubíl á þessu svæði.

Nánari upplýsingar um íbúðina og svæðið og fleiri myndir má finna hér