Landssamtök lífeyrissjóða - vel lukkuð afmælishátíð

Mynd fengin af vef Landssamtaka lífeyrissjóða sem tekin var á afmælishátíðinni í Hofi.
Mynd fengin af vef Landssamtaka lífeyrissjóða sem tekin var á afmælishátíðinni í Hofi.

Í síðustu viku buðu Landssamtök lífeyrissjóða til afmælisfagnaðar í Hörpu og í Hofi. Tilefnið var að fimmtíu ár eru liðin frá því skylduaðild að lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði var ákveðin í kjarasamningum sem undirritaðir voru 19. maí 1969. Þá vill svo til að í ár eru 100 ár liðin frá því fyrstu lífeyrissjóðirnir voru settir á laggir á Íslandi og var þess að sjálfsögðu minnst líka!

Á heimasíðu landssamtakanna má finna frétt um þessa viðburði og þar segir m.a. að Akureyringar og nærsveitarmenn hefðu fjölmenntu á afmælishátíðina í Hofi þann 30. maí. Þar var dagskráin sem fór fram í Hörpunni þann 28. maí endurflutt nema hvað Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjoða, fluttu ávörpin. 

Í ávarpi sínu benti Ásthildur meðal annars á að ekkert komi af sjálfu sér. Að baráttan fyrir bættum kjörum kvenna og karla hafi kostað blóð, svita og tár og í dag bæri okkur að hugsa með hlýrri þökk til þeirra sem stóðu í fylkingarbrjósti og leiddu smám saman í lög, með þýðingarmiklum skrefum í rétta átt, skyldusparnað alls launafólks. 

Í niðurlagi ávarpsins flutti Ásthildur ljóð skáldsins og fyrsta heiðursborgara Akureyrar, Matthíasar Jochumssonar, sem hljóðar svo:

Græðum saman mein og mein,
metumst ei við grannann,
fellum saman stein við stein,
styðjum hverjir annan;
plöntum, vökvum rein við rein,
ræktin skapar framann.
Hvað má höndin ein og ein?
Allir leggi saman!

Ávarp Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri
Ávarp Þóreyjar S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða