Ljósaganga gegn ofbeldi

Þriðjudaginn 25. nóvember nk. kl. 16:30 fer fram ljósaganga á Akureyri í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Tímabil átaksins tengir á táknrænan hátt saman dagana 25. nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls ofbeldis.

Í ár er sjónum beint að stafrænu ofbeldi gegn konum og stúlkum. Gengið verður frá Ráðhústorgi að Amtsbókasafninu þar sem Hjalti Ómar Ágústsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytur stutt erindi.

Að göngunni standa Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Femínistafélag MA, Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna.

Skipuleggjendur hvetja íbúa til að taka þátt, mæta með ljós og ganga saman gegn ofbeldi og tekur Eining-Iðja undir það og hvetur sitt félagsfólk til að mæta og taka þátt.

Nánar um viðburðinn á facebook