LÝSA – Rokkhátíð samtalsins

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins fer fram 6. og 7. september nk. í Hofi Akureyri. Dagskrá hátíðarinnar saman stendur af viðburðum sem hafa samfélagslega tengingu, eru opnir öllum og án aðgangseyris. Markmið hátíðarinnar er að hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Þannig aukum við skilning og traust í samfélaginu. Á LÝSU gefst tækifæri til að varpa ljósi á málefni, eiga samtal við almenning og ráðamenn og leita eftir stuðningi við ýmis hagsmunamál.

Hátíðin, sem hét áður Fundur fólksins, er nú haldin í fimmta sinn hér á landi og mun Eining-Iðja ásamt ASÍ,  Starfsgreinasambandinu og öðrum stéttarfélögum taka virkan þátt í hátíðinni. Nánari upplýsingar um viðburði á vegum verkalýðshreyfingarinnar verða birtar þegar nær dregur hátíðinni.

LÝSU má á margan hátt  líkja við tónlistarhátíð – rokkhátíð samtalsins. Ástæðan fyrir því að fólk sækir tónlistarhátíðir er sú að það vill heyra tónlistina flutta milliliðalaust, verða vitni að því þegar galdurinn á sér stað og upplifa stemninguna með vinum og vandamönnum. Það sama á við um hátíðir á borð við LÝSU. Fólk sækir þær því það vill heyra orðin sögð í eigin persónu, án þess að skilaboðin séu bjöguð í meðförum annarra. Það vill upplifa stemninguna og kraftinn sem er í loftinu og verða innblásið af samtalinu sem á sér stað. Stjórnmálafólk vill fá tækifæri til að tala milliliðalaust við kjósendur, taka þátt í málefnalegu samtali og hlusta á íbúa landsins. Á sambærilegum hátíðum á Norðurlöndum eiga sér stað áhrifarík samskipti, þar eru teknar mikilvægar ákvarðanir og því samtali vill enginn missa af.

LÝSA stuðlar að samtali milli atvinnulífs, stjórnmála, almennings og hagsmunaafla á nýstárlegan hátt. Samtalið fer fram fyrir opnum tjöldum þar sem aðilar kynna sín hagsmunamál og fá til sín sérfræðinga sem styðja málefnin með rökum.

Vefsíða hátíðarinnar: http://www.lysa.is/