ASÍ, BHM, BSRB og KÍ fagna því að í drögum að frumvarpi til laga um loftslagsmál sé lögð áhersla á meginregluna um réttlát umskipti. Samtökin hafa hins vegar margvíslegar athugasemdir fram að færa við drögin.
Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn þessara fjögurra heildarsamtaka launafólks um frumvarpsdrögin.
Á meðal þeirra efnislegu athugasemda sem samtökin gera við frumvarpið er að þau ákvæði þess sem snúa að réttlátum umskiptum séu of óskýr og veikburða til að þau nái því markmiði. Gera þurfi breytingar á frumvarpinu svo að lög um loftslagsmál kveði á um skyldu stjórnvalda til að taka mið af réttlátum umskiptum við mótun stefnu og aðgerða í loftslagsmálum.
Réttlát umskipti
Hugtakið „réttlát umskipti“ felur í sér að afkoma launafólks sé tryggð, vinnumarkaðstengd réttindi varin, að breytingarnar leiði ekki til aukins ójafnaðar og fólki sé gert kleift að sækja sér menntun og þjálfun til að takast á við ný eða breytt störf. Krafan er sú að þær aðgerðir sem ráðast þarf í vegna loftslags- og tæknibreytinga byggi á réttlæti og jöfnuði.
Samtökin leggja til breytingar á skilgreiningu á réttlátum umskiptum sem finna má á tveimur stöðum í greinargerð með frumvarpinu. Að mati samtakanna er núverandi skilgreining í greinargerðinni of þröng.
Breytt Loftslagsráð
Samtökin gagnrýna að í frumvarpsdrögum sé lagt til að Loftslagsráð verði eingöngu skipað sérfræðingum á sviði loftslagsmála. Þetta marki grundvallarbreytingu frá fyrra fyrirkomulagi þar sem fulltrúar launafólks og atvinnurekenda hafa átt fast sæti. Meginregla réttlátra umskipta krefjist þess að samtal og samráð fari fram á vettvangi þar sem vinnumarkaðurinn hefur tryggan aðgang að upplýsingum og geti komið á framfæri sjónarmiðum sínum og hagsmunum starfsfólks, atvinnugreina og byggðarlaga.
Heildarsamtökin kveðast geta stutt þær breytingar sem lagðar eru til á skipan fulltrúa í Loftslagsráð, að því gefnu að stjórnvöld setji á fót vettvang um réttlát umskipti. Þannig megi tryggja raunverulega þátttöku launafólks í stefnumótun og þríhliða samtal og samráð aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda þar sem samstöðu er náð um vegferðina áfram og hún undirbyggð með rannsóknum og greiningu.
Grænvangur án þátttöku launafólks
Samtökin segja ámælisvert að stjórnvöld hafi árið 2019 haft frumkvæði að stofnun Grænvangs, sem sagður er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum, án þess að boða heildarsamtök launafólks til þátttöku í starfi hans. Samkvæmt ársskýrslu Grænvangs fyrir árið 2024 fari stjórn vettvangsins með stefnumótun og samhæfingu aðgerða í loftslagsmálum, þar sem fimm fulltrúar séu skipaðir af stjórnvöldum og fimm af samtökum atvinnulífsins. Enginn fulltrúi launafólks eigi þar sæti.
Fjármögnun aðgerðaáætlunar í lausu lofti
Þá gagnrýna samtökin að í frumvarpsdrögum sé ekki að finna ákvæði sem feli í sér skuldbindingu um fjármögnun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum með skýrum tengslum við fjárlög og framkvæmd á stefnu stjórnvalda. Í greinargerð með frumvarpinu komi fram að hverjum ráðherra sé ætlað að standa straum af þeim aðgerðum sem heyri undir viðkomandi málefnasvið „eftir því sem fjárheimildir leyfa“. Slík vísun til almenns fjárhagslegs svigrúms ráðuneyta veitir enga raunverulega tryggingu fyrir því að aðgerðaáætlun verði hrint í framkvæmd.
Sameiginlega umsögn ASÍ, BHM, BSRB og KÍ um frumvarpsdrögin má finna hér