Hér fyrir neðan má finna nokkrar myndir sem teknar voru þegar fjölmenni safnaðist saman á Akureyri þann 1. maí sl. í fínu veðri til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin í Eyjafirði stóðu fyrir í tilefni alþjóðlegs baráttudags verkafólks. Gengið var frá Alþýðuhúsinu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, og endað við Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins.
Hátíðarhöldin báru þess merki að verkalýðshreyfingin minnist þess í ár að hálf öld er liðin frá því að íslenskar konur tóku höndum saman og lögðu niður störf, launuð sem ólaunuð, þann 24. október 1975 með sögulegu kvennafríi. Kröfugangan í ár var því leidd af konum sem báru fána í broddi fylkingarinnar.
Dagurinn markaði einnig aldar tímamót, en 100 ár eru frá því að efnt var til hátíðarhalda í tilefni af verkalýðsdeginum í fyrsta sinn á Akureyri. Myndasýning frá liðnum árum tók á móti gestum í Hofi auk þess sem fánar starfandi og eldri stéttarfélaga héngu uppi til sýnis.
Fundarstjóri var Eyrún Huld Haraldsdóttir, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri. Bethsaida Rún Arnarson, trúnaðarmaður til margra ára, varaformaður Matvæla- og þjónustudeildar og stjórnarkona í Einingu-Iðju, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna sem má finna í heild neðst í fréttini og Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, flutti hátíðarræðuna að þess sinni. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Félagar í Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri mættu á svæðið og sýndi atriði úr Galdrakarlinum í OZ sem þau settu nýlega á svið. Karlakór Akureyrar Geysir söng tvö lög og leiddi einnig samsöng í lokin, en gestir enduðu á að syngja Maístjörnuna.
Að dagskrá lokinni var gestum boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð, pylsur og safa, auk þess sem börnin gátu fengið andlitsmálningu. Það má með sanni segja að dagurinn hafi verið vel heppnaður í alla staði og þökkum við öllum þeim sem komu og fögnuðu með okkur.
Skipulag dagsins var í höndum Byggiðnar, Einingar-Iðju, Félags Málmiðnaðarmanna Akureyri, Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Kennarasambands Íslands, Kjalar - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, Rafiðnaðarfélags Norðurlands og Sameyki. Sjáumst hress að ári liðnu!