Myndir frá 1. maí á Akureyri

Hér fyrir neðan má finna nokkrar myndir sem teknar voru þegar fjölmenni safnaðist saman á Akureyri þann 1. maí sl. í fínu veðri til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin í Eyjafirði stóðu fyrir í tilefni alþjóðlegs baráttudags verkafólks. Gengið var frá Alþýðuhúsinu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, og endað við Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins.

Elsa Sigmundsdóttir, skrifstofustjóri Einingar-Iðju, var fundarstjóri og stýrði dagskránni í Hofi. Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), flutti ávarp 1.maí nefndar stéttarfélagana við Eyjafjörð sem má lesa í heild hér fyrir neðan. Því næst stigu á svið leikarar frá Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri með tvö stórbrotin atriði úr söngleiknum um Gosa og var þeim vel fagnað. Hátíðarræða dagsins var í höndum Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta Alþýðusambans Íslands. Á vef ASÍ er hægt að hlýða á kveðju frá Finnbirni í tilefni dagsins. Ívar Helgason, tónlistamaður, sló svo lokatóninn með hópsöng, en gestir enduðu á að syngja Maístjörnuna.

Að dagskrá lokinni var gestum boðið upp á kaffihressingu, pylsur og safa, auk þess sem börnin gátu fengið andlitsmálningu. Það má með sanni segja að dagurinn hafi verið vel heppnaður í alla staði og þökkum við öllum þeim sem komu og fögnuðu með okkur.

Skipulag dagsins var í höndum Byggiðnar, Einingar-Iðju, Félags Málmiðnaðarmanna Akureyri, Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Kennarasambands Íslands, Kjalar - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, Rafiðnaðarfélags Norðurlands og Sameyki. Sjáumst hress að ári liðnu!