Hvernig bregst ég við fordómafullri umræðu?

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna 78 sá um fræðsluna. Mynd fengin af…
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna 78 sá um fræðsluna. Mynd fengin af vef ASÍ

Heildarsamtök launafólks (ASÍ, BSRB, KÍ og BHM) buðu starfsfólki aðildarfélaga á námskeið Samtakanna 78 um skaðlega orðræðu og hvernig hægt sé að bregðast við henni. Námskeiðið var haldið í byrjun september í húsakynnum KÍ og á fjarfundi og fylgdust nokkir starfsmenn félagsins með í fjarfundi.

Í námskeiðinu var farið yfir hvernig best væri að takast á við fordóma í nærumhverfinu, rætt um birtingarmyndir og áhrif hatursorðræðu og kennt hvernig hægt sé að bregðast við fordómafullum athugasemdum sem svokölluðu gagnræðu aðferðum (counterspeech).

Fræðslan var í höndum Þorbjargar Þorvaldsdóttur, samskipta- og kynningarstjóra hjá Samtökunum 78. Hún lagði áherslu á að hatursorðræðu eigi ekki að láta ósvarað. Ábyrgðin hvíli á okkur öllum – við höfum öll okkar áhrifahring og getum lagt af mörkum við að sporna gegn hættulegri orðræðu. Ef við látum hatursorðræðu óáreitta fær hún meira pláss, sem ýtir smám saman undir fordóma, mismunun og ofbeldi.

Fræðslan er liður í sameiginlegu átaki heildarsamtaka launafólks til að efla starfsfólk stéttarfélaga í baráttunni fyrir jöfnuði og mannréttindum.