Niceair - tvö niðurgreidd gjafabréf í boði frá áramótum

Síðastliðið sumar gerðu Eining-Iðja og Niceair með sér samkomulag um tímabundin afsláttarkjör til áramóta á gjafabréfum hjá Niceair til félagsmanna Einingar-Iðju. Hver félagsmaður getur keypt eitt niðurgreitt gjafabréf á þessu tímabili og voru félagar duglegir að nýta sér þessi góðu kjör.

Nú er búið að endurskoða samninginn og framlengja hann með smá breytingu. Hver félagsmaður mun frá næstu áramótum geta keypt tvö gjafabréf á ári, sem er sparnaður upp á kr. 20.000. Fyrir hvert bréf er greitt kr. 22.000 en virði gjafabréfsins er kr. 32.000 og er því afslátturinn kr. 10.000 á gjafabréf.

Gjafabréfin verða áfram seld í gegnum orlofsvef Einingar-Iðju

Hægt er að nýta gjafabréfin til kaupa á flugfargjaldi og annarri bókunarþjónustu hjá Niceair í gegnum bókunarsíðu félagsins www.niceair.is

Gleðilegt
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir það gleðilegt að félagsmenn hafi verið duglegir að nýta sér þessi góðu afsláttarkör hjá Niceair. „Eins og ég sagði þegar við skrifuðum undir í upphafi er gott að stuðla að því að fyrirtæki í heimabyggð, eins og þetta, gefi okkar félagsmönnum tækifæri til að fá aðeins ódýrara flug. Þá var ég bjartsýnn á að félagsmenn myndu nýta sér þetta tækifæri og raunin varð einmitt sú. Ég er viss um að það muni halda áfram, ekki síst eftir að við ákváðum að bæta í og hafa í boði tvö niðurgreidd gjafabréf, á hvern félagsmann, á ári. Þetta er auðvitað kostnaður fyrir félagið en við fáum líka góðan afslátt frá Niceair á móti. Þeir eru að gera þarna góða hluti og vonandi gengur þetta áfram vel og að okkar félagsmenn haldi áfram að nýta sér vel þessa góðu kjarabót sem samningurinn er að tryggja þeim.“ 

Fjórir áfangastaðir
Niceair hefur verið starfrækt síðan í júní á þessu ári og flýgur nú til Kaupmannahafnar og Spánar frá Akureyri. Fleiri áfangastaðir eru í bígerð fyrir 2023 en á bókunarsíðu þeirra kemur fram að flug til Düsseldorf muni hefjast 6. maí 2023 og að flug til Alicante verði í boði á tímabilinu 11. apríl til 24. maí 2023. Nú þegar er hægt að bóka í flug á þessa staði.

Í tilkynningu sem félagið sendi nýverið frá sér segir að verkefni félagsins er fyrst og fremst að auka aðgengi erlendra ferðamanna að Norður- og Austurlandi auk þess að þjónusta íbúa þeirra landshluta. Starfsemin hefur verið í takti við væntingar, en sætanýting frá upphafi er 68% og hefur félagið flutt um 25 þúsund farþega. Hlutfall erlendra ferðamanna í október 2022 var um 22% og hefur farið stig vaxandi frá upphafi.“