Nokkrar vísur úr "Fjallaferðinni"

Hér má sjá ferðalangana á brúnni við Sænautasel
Hér má sjá ferðalangana á brúnni við Sænautasel

Í síðustu viku stóð félagið fyrir "Fjallaferð" ársins þar sem um 50 félagsmenn og makar þeirra ferðuðust um Austurland. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og hér á eftir má finna nokkrar vísur sem einn ferðalanga, Davíð Hjálmar Haraldsson, setti saman.

För Einingar–Iðju austur á land í ágúst 2025.
Strax í upphafi ferðar kom í ljós að leiðsögumaður kunni skil á bókstaflega öllu sem fyrir bar. Lýsti hann í smáatriðum hvernig menn baða sig í heita læknum við gangamunnann að vestanverðu. Hafði hann farið þar um ótal sinnum í menntunarskyni.

Er handklæðið menn hafa látið falla
er hægt að skoða þá og meta alla;
langa, stutta, lága, snoðna, háa,
loðna, gríðarstóra eða smáa.

Stutt frá Másvatni er Kæfumýri. Leiðsögumaður taldi líklegast að þar dræpist margt fé og ketið nýttist best í kæfu. Lambaket var í matinn um kvöldið á Eiðum.

Ljúffengt það seður, sauðaketið.
Sitjum við lengi, mikið etið
en erum loks södd, ó Drottinn dýri!
Dó þetta lamb í Kæfumýri?

Leiðsögumaður kunni vel skil á kostnaði við að stansa við hinar ýmsu sjoppur. Vegna viðgerða á brú yfir Jökulsá voru þar tafir á umferð. 

Við Mývatn eru margar vegasjoppur.
Mars fæst þar og harðfiskur og Toppur.
Við Gíg er best – það Guðný kvað á hreinu –
þar getur hópur pissað frítt í einu.

Stuttur stans var við Kárahnjúk.

Að Kárahnjúk ég kom en undi stutt.
Kveður Tröllaslag þar Gilitrutt.
Aurugt vatnið steypan gleypir grá.
Guð er til en hvergi þar að sjá.

Bílstjóri okkar var afar fær, gat ekið hvar sem var. Leiðsögumaðurinn fullyrti að bílstjórinn æki nú nýja Vopnafjarðarveginn án þess að vita að hann væri til.

Hann ók vegi sikk og sakk,
svo til lóðrétt, áfram, bakk,
aust og vest og út á hlið
því aksturinn var Rabba svið
og nýjum vegi lengi ók hann á
án þess þó að vita hann og sjá.

Bílstjórinn var ljóðelskur og fór með frægan kveðskap eftir Hákon sáluga, hirðskáld Austurlands.

Þeim brá ekki vitund, það var ekki að sjá,
– varla að roðnuðu fljóðin –
en það get ég svarið að birtan varð blá
í bílnum er fór hann með ljóðin.

Fararstjórn var í öruggum höndum Önnu er lagaði sig að síbreytilegum aðstæðum.

Á fararstjórann stólað gátum
– styrk er Anna, djörf og vís –
en hvar við sváfum, ókum, átum
eiginlega var þó grís.

 En hvað bar hæst í ferðinni, hvað situr í minningunni?

Um Austurland er ótalmargt að sjá;
akra, skóga, hreindýr, fiskiá,
en það sem bætir lund og léttir sorg
er lambagras sem vex í Hrossaborg.

Takk fyrir mig. Sérstakar þakkir fá Anna formaður og fararstjóri, Guðný leiðsögumaður, Elsa skrifstofustjóri og Rabbi bílstjóri.
DHH