Ný skýrsla frá Kjaratölfræðinefnd

Fyrr í morgun var kynnt haustskýrsla Kjaratölfræðinefndar 2023, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag.

Kynningin var í formi fjarfundar sem streymt var í gegnum heimasíðu Kjaratölfræðinefndar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra ávarpaði fundinn, auk þess sem Hrafnhildur Arnkelsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar fór yfir umfjöllun um laun og launaþróun. Arnaldur Sölvi Kristjánsson, starfsmaður nefndarinnar fjallaði stuttlega um stöðu efnahagsmála.

Í skýrslunni er fjallað um þróun launa og efnahagsmála í yfirstandandi kjarasamningslotu sem hófst með gerð skammtímasamninga á almennum vinnumarkaði í lok árs 2022 auk þess sem síðasta kjarasamningstímabil sem stóð frá 2019-2022 er gert upp.

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands.

Skýrslan og tölfræðigögn eru aðgengileg á vef Kjaratölfræðinefndar. Það er von nefndarinnar að sá grunnur upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni nýtist haghöfum vel.