Nýr bæklingur um öryggi vinnuvéla

Vinnueftirlitið hefur gefið út nýjan bækling um öryggi við vélar þar sem farið er yfir helstu öryggisþætti sem tengjast þeim. Sýnt er hvernig fjarlægja má hættur við vélar með mismunandi aðferðum. Í bæklingnum segir meðal annars að vélar séu í eðli sínu hættulegar en ef þær eru vel hannaðar, tryggilega uppsettar og notaðar rétt megi koma í veg fyrir öll slys við þær.

Algengustu slys við vélar séu að fólk klemmist, festist í þeim, fær högg, brennir sig o.fl. Oft séu slys við vélar mjög alvarleg, mar, beinbrot, útlimamissir eða jafnvel dauði. Öryggi snúist m.a. um hæfni til að vinna við breytilegar og ófyrirsjáanlegar aðstæður. Þá segir að vélar sem séu í lagi vinni alltaf eins og séu mjög fyrirsjáanlegar. Það sé því auðveldara að tryggja öryggi við vélar en við flestar aðrar vinnuaðstæður.

Á vef Vinnueftirlitsins er hægt að nálgast bæklinginn sem er 20 blaðsíður með fjölda mynda og gátlista.