Opnum aftur 4. maí - hvetjum áfram til rafrænna samskipta

Við munum opna aftur skrifstofur félagsins mánudaginn 4. maí nk. eftir lokun undanfarnar vikur vegna COVID-19. Fyrst um sinn verður starfsfólkinu á Akureyri áfram skipt upp í tvo hópa, þetta á einnig við um VIRK ráðgjafana. Á meðan annar hópurinn sinnir störfum sínum á skrifstofunni mun hinn hópurinn vinna heima. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að loka þurfi skrifstofunni alveg ef upp kæmi þar smit eða ef einhver starfsmaður þyrfti að fara í sóttkví. Þannig að skrifstofur félagsins, á Akureyri, á Dalvík og í Fjallabyggð verða allar opnar skv. venjubundnum opnunartíma frá og með 4. maí.

Við bendum félagsmönnum á að fjölda erinda við félagið er hægt að sinna í gegnum síma og með tölvupósti. Sími félagsins er 460 3600 en einnig má senda póst á ein@ein.is. Netföng einstakra starfsmanna.

Kæru félagar. Við þökkum fyrir þolinmæðina undanfarnar vikur og sendum ykkur hrós hversu vel hefur tekist að aðlagast breyttum samskiptum við félagið á þessum veiru tímum.

Á skrifstofum félagsins eru allir snertifletir sótthreinsaðir reglulega og eftir þörfum. Þeir sem nauðsynlega þurfa að koma er bent á að við innganga eru sprittbrúsar og eiga allir að spritta á sér hendurnar áður en gengið er að afgreiðsluborðum. Við afgreiðsluborð þarf að hafa í huga að í gildi er tveggja metra fjarlægðarregla. 

Virðum áfram allar reglur sóttvarnalæknis þar til endanlega hefur verið slakað á þeim. Skv. sóttvarnalækni munu eftirfarandi aðgerðir skila tilætluðum árangri að koma í veg fyrir hópsýkingar og frekari útbreiðslu.

  • Handþvottur!
  • Handspritt!
  • Hreinsa áhöld og fleti sem maður veit ekki hverjir hafa snert!
  • Forðast fjölmenni!

Þeir sem finna fyrir einhverjum einkennum sem geta bent til þess að viðkomandi sé smitaður, hafa verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum erlendis og þeir sem hafa umgengist fólk sem svo hefur greinst með COVID-19 eru vinsamlegast beðnir um að koma EKKI á skrifstofur félagsins.