Rannsókn á reynslu kvenna með örorkulífeyri

Ný skýrsla Félagsvísindastofnunar, unnin fyrir Tryggingastofnun í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og Velferðarvaktina, var kynnt á málþingi sl. fimmtudag. Niðurstöður samanburðarrannsóknar á reynslu og aðstæðum kvenna 50 – 66 ára með örorkulífeyri sýna að þær eru líklegri en konur sem ekki eru með örorkulífeyrisgreiðslur til að hafa unnið við erfiðar aðstæður á vinnumarkaði, borið ábyrgð á uppeldi barna sinna, orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og hafa átt við fjárhagsörðugleika að stríða.

Í ávarpi Huldar Magnúsdóttur, forstjóra TR, kom fram að konur eru 61% þeirra sem eru með örorkulífeyrir og að á aldursbilinu 60-66 ára eru 33% allra kvenna með örorku. Hlutfall kvenna eftir 55 ára aldur með örorkulífeyrir almannatrygginga sem hlutfall kvenna búsettum á Íslandi er í sumum aldursbilum allt að 26%. Í reynd þýðir þetta að í sumum árgöngum eftir sextugt er fjórða hver kona á Íslandi öryrki. Stærsti hópurinn með örorkulífeyrir sem fer af vinnumarkaði eru konur yfir fimmtugt. Um er að ræða fjölmennan hóp og því um samfélagslegt mál að ræða.

Á málþinginu benti Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, á tengslin milli þess sem lesa megi úr rannsókninni við áherslur Kvennaárs, en þar er úrbóta sérstaklega krafist á þessum sviðum.

Ari Klængur Jónsson, verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar. 

Einhleypar með ábyrgð á uppeldi barna 

Hærra hlutfall kvenna með örorkulífeyri eru einhleypar, hafa skilið eða slitið sambúð og eru einstætt foreldri en konur í samanburðarhópi og karlar með örorkulífeyri.

Í vaktavinnu og krefjandi aðstæður í vinnu 

Helstu niðurstöður sýna að konur með örorkulífeyrisgreiðslur hafa á starfsferli sínum verið í vaktavinnu, gjarnan unnið í óþægilegum líkamsstellingum og notað endurteknar hreyfingar í vinnu auk þess að þurfa að fást við krefjandi félagslega eða tilfinningalega erfiðar aðstæður í vinnu í meira mæli en konur sem ekki eru með örorkulífeyrisgreiðslur. 

Þolendur ofbeldis 

Konur með örorkulífeyrisgreiðslur eru líklegri til að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, bæði sem barn og fullorðin, en konur í samanburðarhópi. Jafnframt höfðu þær oftar orðið fyrir einelti eða andlegu ofbeldi.  

Erfiðar fjárhagsaðstæður 

Konur með örorkulífeyrisgreiðslur voru líklegri til að hafa verið sagt upp leiguhúsnæði eða misst eigið íbúðarhúsnæði. Þá sögðu mun fleiri konur í rannsóknarhópi en konur í samanburðarhópi að það hefði reynst frekar eða mjög erfitt að ná endum saman fjárhagslega fyrir fjölskylduna áður en þær fóru fyrst að finna fyrir heilsufarsvanda samanborið við sl. tíu ár hjá samanburðarhópnum. 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast og lesa á vef Félagsvísindastofnunar HÍ.