Á vef SGS má finna eftirfarandi umfjöllun um fréttaskýringaþáttinn Kveik, sem sýndur var á RÚV í fyrrakvöld og gerði starfsemi erlendra lífeyrissjóða hér á landi að umfjöllunarefni og þá miklu fjármuni sem slíkir sjóðir hafa af launafólki. Kveikur vísaði m.a. í ályktun sem samþykkt var á þingi Starfsgreinasambandsins nýverið um starfsemi erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér landi. Þar fordæmdi þingið afdráttarlaust þá ólögmætu markaðssetningu sem slíkir aðilar stunda hér á landi.
Kveikur tók viðtöl við fjölda fólks sem lýsti þeim brögðum sem umræddir sjóðir beita til að fá undirritun þeirra á flókna samninga sem eiga að nafninu til að vera lífeyrissparnaður.
Fram kom að á bak við öflugar söluræður og glansmynd tryggingasölumanna er falinn kostnaður og flóknir samningar sem oftar en ekki eru skrifaðir á erlendu tungumáli. Helsti hvati þessara sjóða er ekki að bjóða fólki upp á aðrar leiðir í lífeyrissparnaði heldur að fá sem hæstar þóknanir.
Þetta staðfestu fyrrverandi starfsmenn sem sögðu að það eina sem skipti máli væri að gera sem flesta samninga og að peningar kæmu inn.
Þing SGS ályktaði í október sl. að lögum samkvæmt væri óheimilt að ráðstafa lífeyrisiðgjaldi í annað en lífeyrisréttindi. Þrátt fyrir það hafa erlendir aðilar tekið stóran hluta af lífeyrissparnaði íslensks launafólks í þóknanir og kostnað – allt að 25,8% fyrstu fimm árin og að meðaltali 7,9% yfir 40 ára samningstíma. Þetta jafngildir milljörðum króna sem dregnir hafa verið af sparnaði launafólks og runnið í arðsemisvélar erlendra tryggingafélaga og íslenskra fjármálafyrirtækja.
Slíkt fyrirkomulag gangi gegn lögum, er ósanngjarnt og brot á jafnræðisreglu stjórnarskárinnar. Þannig er lífeyrissparnaður launafólks smám saman étinn upp af þóknunum sem aldrei hefðu átt að fara í annað en tryggja framtíðarréttindi.
Kveikur tók viðtöl við fyrrverandi starfsmenn erlendra vörsluaðila sem staðfestu það sem þing SGS ályktaði, að sölumenn þessara félaga herja sérstaklega á ungt fólk á vinnumarkaði og fá það til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði sínum og tilgreindri séreign í slíkan sparnað.
Þá fékkst staðfestur sá ótti þings SGS um að ungt fólk sé hvorki upplýst sem skyldi um þá gífurlegu þóknun sem tekin er beint af iðgjöldum þeirra né hversu mikið þau tapa á slíkum samningum til lengri tíma.
Í ljósi þess sem fram kom í þætti Kveiks má velta því upp hvort tími sé til komin að Fjármálaeftirlitið/Seðlabankinn svari spurningum þingsins: