SGS - Stefnan skýr til næstu tveggja ára

Þing SGS fór fram á Akureyri í síðustu viku. Mynd af vef SGS
Þing SGS fór fram á Akureyri í síðustu viku. Mynd af vef SGS

Á 10. þingi Starfsgreinasambandsins sem lauk á Akureyri á dögunum voru samþykktar sjö ályktanir um byggðamál, starfsemi PCC á Bakka, húsnæðismál, kjaramál, leikskólamál, lífeyrismál og starfsemi erlenda vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi. 

Þingið skorar á stjórnvöld að standa vörð um landsbyggðina í byggðamálum enda skapar landsbyggðin stóran hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar með framleiðslu, útflutningi og nýtingu auðlinda.

Þingið gerir þá kröfu að eðlilegur hluti af þeim verðmætum sem landbyggðin skapar skili sér aftur heim í hérað og þau verðmæti verði m.a. notuð til:

  • að gera íbúum á landsbyggðinni kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í mun meira mæli í heimabyggð.
  • að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag með stórauknum framlögum vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fjarri heimabyggð.
  • ráðist verði í frekari jarðgangnagerð.

Þingið kallaði eftir aðkomu stjórnvalda í málefnum PCC Bakki Silicon hf. við Húsavík með raunhæfum aðgerðum sem miði af því bæta rekstrarumhverfi PCC, svo framleiðsla geti hafist nýju, enda um að ræða mjög fjölmennan vinnustað á Norðurlandi.

Þingið lýsti yfir miklum áhyggjum í húsnæðismálum, þá sérstaklega af stöðu leigjenda og fólks sem er að reyna eignast eigið heimili. Leggja þurfi ríkari áherslur á félagslegar lausnir í húsnæðismálum en nú er gert. Þingið krefst þess að stjórnvöld grípi þegar í stað til aðgerða sem m.a. tryggja:

  • aðgengi fólks að íbúðarhúsnæði með sértækum úrræðum og stuðningi.
  • áframhaldandi ráðstöfun séreignasparnaðar til fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota.
  • draga þarf úr vægi verðtryggingar sem hefur í áratugi flutt byrðar húsnæðislána yfir á lántakendur.

Þá lýsti þingið yfir undrun sinni að styrking krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum hefur ekki skilað sér í lægra vöruverði til þeirra á innfluttum vörum. Hér megi benda á ofsagróða olíufélaganna, stórmarkaða og fleiri. Þing SGS krefst þess að verslun og þjónusta axli ábyrgð sína og skili ávinningi styrkingu krónunnar til neytenda.

Þingið varar við þróun sem átt hefur sér stað í leikskólamálum undanfarið þar sem sveitarfélög víða um land hafa breytt vistunartíma barna, sem gerir að verkum að þeir lægst launuðu sem hafa ekki fengið styttingu vinnuvikurnar, þurfa að greiða mun hærri leikskólagjöld. Breytingin komi helst niður á ráðstöfunarfé verkafólks og þeim sem hafa lítið bakland, svo sem innflytjendum og einstæðum foreldrum.  

Þingið fordæmir gróft og miskunnarlaust óréttlæti sem íslensku verkafólki er sýnt í lífeyrismálum. Nú vantar yfir 5,4 milljarða króna árlega til að lífeyrissjóðir verkafólks standi jafnfætis öðrum sjóðum landsins hvað varðar jöfnun á örorkubyrði. Árið 2005 var samið um framlag ríkisins til jöfnunar örorkubyrði til tryggja jafna stöðu allra lífeyrissjóða. Ástæðan var augljós: örorkubyrði verkafólks, sem vinnur erfiðisvinnu, er margfalt meiri en í sjóðum þar sem félagsmenn starfa við léttari störf.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar á þetta framlag að falla niður að fullu á næsta ári.

Þá fordæmir þingið afdráttarlaust þá ólögmætu markaðssetningu sem tíðkast hefur í starfsemi erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér landi. Þar sem slíkir aðilar eru innheimta gríðarlegar háar þóknanir og kostnað – allt að 25,8% fyrstu fimm árin af lífeyrissparnaði launafólks í trássi við íslensk lög. Sölumenn þessara félaga hafa herjað sérstaklega á ungt fólk á vinnumarkaði. Þess er krafist að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið stöðvi án tafar slíka miðlun lífeyrissparnaðar.