SÍMEY fær endurnýjaða viðurkenningu sem fræðsluaðili í framhaldsfræðslu

Á heimasíðu SÍMEY segir að með bréfi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu hefur SÍMEY fengið endurnýjaða viðurkenningu fræðsluaðila til næstu þriggja ára – til 2028. Síðast fékk SÍMEY þessa viðurkenningu á haustdögum 2022.

Á þriggja ára fresti sækja allir fræðsluaðilar sem eru með framhaldsfræðslu um viðurkenningu yfirvalda menntamála á að bjóða upp á raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf og standa fyrir hvers konar námskeiðahaldi. Til þess að geta sótt um þarf SÍMEY og allar aðrar menntastofnanir að uppfylla lög um framhaldsfræðslu frá 2010 og reglugerð um framhaldsfræðslu frá 2011.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir vissulega afar mikilvægt fyrir miðstöðina að fá þessa viðurkenningu til þess að starfa sem fræðsluaðili í framhaldsfræðslu. Til þess að fá slíka viðurkenningu sé horft til m.a. fjármála miðstöðvarinnar og fjárhagsáætlunar til næstu fimm ára, kennslu og námskeiðahalds, skipulags náms og umsjónar með því, námskrár og námslýsinga, hæfni með tilliti til þekkingar og reynslu, trygginga, gæða- og öryggismála. Í viðurkenningunni felst að SÍMEY getur fengið rekstrarframlag frá mennta- og barnamálaráðuneytinu og miðstöðin hefur aðgang að fjármagni úr Fræðslusjóði, sem er einn af mikilvægustu þáttum í fjármögnun starfseminnar, og frá Rannís til íslenskukennslu.