Vert er að minna félagsfólk á að hjá SÍMEY er náms- og starfsráðgjöf í boði fólki að kostnaðarlausu.
Á heimasíðu SÍMEY segir Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi í SÍMEY, að „náms- og starfsráðgjöfin hjá okkur er fjölbreytt. Við leggjum fólki í atvinnuleit lið við að gera ferilskrár og kynningarbréf, við aðstoðum fólk í vali á námi og einnig býð ég upp á svokallaða áhugasviðskönnun þar sem greint er hvar áhugi fólks og styrkleikar liggja. Þá er námstækni hluti af náms- og starfsráðgjöfinni, þ.e.a.s. hvernig best sé að stunda nám því margir nemenda okkar í fullorðinsfræðslunni hafa ekki verið á skólabekk í ár eða áratugi eftir grunnskóla og dæmi eru um að fólk sem kemur til okkar hafi á sínum tíma ekki lokið grunnskóla. Fyrir það er oft ansi hár þröskuldur að setjast aftur á skólabekk og það finnur til óöryggis með hvernig best sé að haga náminu.
Það er mikilvægt að undirstrika að náms- og starfsráðgjöf okkar stendur öllum til boða og hún er án endurgjalds.
Margir þeirra sem fá náms- og starfsráðgjöf hjá okkur fara í gegnum raunfærnimat hér og einnig eru margir sem annað hvort búa sig undir að koma til okkar í nám eða fólk sem er í námi í SÍMEY og horfir til þess að halda áfram í námi í hinu formlega skólakerfi. Einnig eru dæmi um að til okkar leiti fólk sem hefur frétt af þessari þjónustu. En því miður held ég að allt of fáir viti að við bjóðum upp á náms- og starfsráðgjöf hér og að hún standi öllum til boða án endurgjalds. Við viljum því endilega gera þessa ráðgjöf sýnilegri því við vitum hversu mikilvæg hún er fólki.“
Utan um náms- og starfsráðgjöfina í SÍMEY halda Helena Sif - helena@simey.is og Jónína Margrét Guðbjartsdóttir – jonina@simey.is en Helena hefur áhugasviðskannanirnar alfarið á sinni könnu.
Í náms- og starfsráðgjöfinni er SÍMEY m.a. í samstarfi við Vinnumálastofnun, VIRK og Starfsendurhæfingu Norðurlands.
Til þess að bóka náms- og starfsráðgjöf er einfaldast að senda Helenu Sif eða Jónínu Margréti tölvupóst en einnig er hægt að bóka viðtal hér á heimasíðu SÍMEY.
Vert er að geta þess að náms- og starfsráðgjöf er í boði á starfsstöð SÍMEY á Akureyri og einnig er boðið upp á viðtöl í gegnum fjarfundarbúnað. Það þýðir með öðrum orðum að búseta er ekki hindrun í að nýta sér þessa þjónustu ráðgjafa í SÍMEY.