Félagið hélt í gær námskeið fyrir starfsfólk félagsins. Námskeiðið fór fram í sal félagsins á Akureyri og sá Sigríður Hulda Jónsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri SHJ ráðgjafar, um fræðsluna. Námskeið sem þetta er hugsað til að styrkja starfsfólk Einingar-Iðju í starfi, ekki síst í þeim tilgangi til að geta veitt félagsmönnum enn betri þjónustu. Námskeiðið heppnaðist mjög vel.
SHJ ráðgjöf sérhæfir sig í fræðslu og ráðgjöf fyrir vinnustaði með áherslu á starfsmannamál og stjórnun, s.s. starfsánægju og starfsárangur, stjórnendaþjálfun, stefnumótun, vinnustaðamenningu, samskipti og samskiptasáttmála, álag og krefjandi aðstæður. Sigríður Hulda sérhæfir sig í færniþáttum atvinnulífs á 21. öldinni í tengslum við þróun vinnumarkaðar og starfshæfni einstaklinga.
Því má bæta við að Sigríður Hulda er búin að vera með námskeið alla daga í þessari viku á Akureyri fyrir skjólstæðinga VIRK. Hún vinnur með hópa frá Virk og Vinnumálastofnun með áherslu á starfshæfni, persónlega stefnumörkun, áhrifaþætti á sjálfstraust, áhugasvið, þjálfun í atvinnuviðtali, gerð ferilskrár, styrkleikagreiningar, úrvinnslu kulnunar og áfalla með áherslu á valdeflingu, seiglu, bjargráð, lífsviðhorf og trú á eigin getu.