Ályktun trúnaðarráðs um lífeyrismál - Svik við verkafólk!

Trúnaðarráð Einingar-Iðju fordæmir harðlega aðför stjórnvalda að lífeyrisréttindum verkafólks með þv…
Trúnaðarráð Einingar-Iðju fordæmir harðlega aðför stjórnvalda að lífeyrisréttindum verkafólks með því að afnema frá og með næstu áramótum framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Fyrr í dag fór fram fundur í trúnaðarráði Einingar-Iðju. Fyrsti liður á dagskrá var erindi frá Stapa lífeyrissjóði þar sem m.a. var fjallað um framlag til jöfnunar á örorkubyrði. Þar kom t.d. fram að slysatíðni væri mjög ólík milli starfsstétta, sum störf eru einfaldlega hættulegri en önnur ef horft er til slysatíðni eða brotthvarfs af vinnumarkaði af starfstengdum ástæðum. Lífeyrissjóðir verkafólks á borð við Stapa eru að mestu starfsgreinabundnir og þær starfsstéttir sem greiða til Stapa eru útsettari fyrir örorku. Stapi þarf því að verja stærri hluta iðgjaldsins til þess að greiða örorkulífeyri heldur en meðalsjóðurinn og þá verður minna eftir til að greiða eftirlaun. Örorkubyrði Stapa er því hærri en meðalsjóðsins.

Til að jafna þennan mun milli sjóða fá lífeyrissjóðir úthlutað svokallað framlag til jöfnunar á örorkubyrði. Upphaflega fengu aðeins ASÍ sjóðir úthlutuðu framlagi en síðar náði það yfir alla lífeyrissjóði. Fyrir sjóði á borð við Stapa gegnir jöfnunarframlagið lykilhlutverki við að jafna réttindaávinnslu milli ólíkra lífeyrissjóða. Nýtt bráðabirgðaákvæði laga gerir ráð fyrir 40% lægra hlutfalli jöfnunarframlags af gjaldstofni tryggingargjalds og gerir fjármálaáætlun ráð fyrir brotthvarfi framlagsins á árinu 2026. 

Eftir góðar umræður um erindið var samþykkt eftirfarandi ályktun um ákvörðun stjórnvalda um að afnema framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum. 

Svik við verkafólk!

Trúnaðarráð Einingar-Iðju fordæmir harðlega aðför stjórnvalda að lífeyrisréttindum verkafólks með því að afnema frá og með næstu áramótum framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Stjórnvöld eru með þessu að brjóta gegn samkomulagi við verkalýðshreyfinguna frá árinu 2005, en það átti að tryggja að réttindaávinnsla væri jöfn milli sjóða.

Að afnema jöfnunarframlagið bitnar sérstaklega á verkamannasjóðum, en þar er örorkubyrðin mest. Verkafólk, sem vinnur erfiðisvinnu, safnar allt að 15% lakari lífeyrisréttindum en sjóðsfélagar annarra lífeyrissjóða – þrátt fyrir að greiða nákvæmlega sama iðgjald. Þetta er alvarlegt brot á jafnræðisreglu og felur í sér kerfisbundna mismunun á hendur verkafólki. Það er með öllu óásættanlegt að íslenskt verkafólk sé sett í verri stöðu en aðrir þegar kemur að lífeyrisréttindum.

Trúnaðarráð félagsins fordæmir einnig þá staðreynd að einkafyrirtæki geti haft tilgreinda séreign að féþúfu með því að herja á vinnandi fólk með vafasömum söluaðferðum.

Í mörgum tilfellum er mikill kostnaður við samningana, þeir geta verið flóknir og óljósir, jafnvel á erlendum tungumálum sem gerir fólki erfitt um vik að átta sig á hvað það er að skrifa undir.