Á 10. þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri í síðustu viku var sjálfkjörið í framkvæmdastjórn SGS. Tryggvi Jóhannsson, varaformaður Einingar-Iðju, sem setið hefur sem varamaður í framkvæmdastjórn var einn af sjö sem voru í framboði og mun því sitja í framkvæmdastjórn SGS næstu tvö árin.
Tryggvi var einnig kjörinn í tvær fastanefndir sambandsins fyrir starfstímabilið 2025-2027; Laganefnd og kjörnefnd.
Anna Júlíusdóttir, formaður félagsins, sem setið hefur í framkvæmdastjórn SGS undanfarin ár ákvað að bjóða sig ekki fram á ný. "Ég mun verða hætt störfum fyrir félagið áður en tímabil núverandi framkvæmdastjórnar lýkur. Að mínu mati er nauðsynlegt að Eining-Iðja eigi alltaf fulltrúa í framkvæmdastjórninni og óvíst hver kæmi inn sem varamaður í minn stað. Því var ákveðið að Tryggvi yrði í framboði sem aðalmaður í framkvæmdastjórn sambandsins."
Þá var Rósfríð Kristín Áslaugsdóttir, Skráningar- og innheimtustjóri Einingar-Iðju, kjörin á ný sem annar skoðunarmaður ársreikninga SGS.