Á vef ASÍ segir að á hverju ári er styrkjum úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar úthlutað til verkefna sem varða sérstaklega íslenskan vinnumarkað, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.
Í ár samþykkti stjórn sjóðsins að veita eftirfarandi styrki:
Anna Marjankowska, Maja Luxemberg, Anna Pawłowska og Anna Maria Wojtyńska hlutu 500.000 kr. til verkefnisins Rannsókn á aðstæðum farandverkafólks í gistihúsum, með aðferðum rannsóknarlistar og leikja. Verkefnið gengur út á að rannsaka og miðla aðstæðum farandverkafólks í ferða- og gistihúsageiranum á Íslandi. Sérstaða verkefnisins er sú, að það byggir ekki eingöngu á hefðbundnum fræðilegum aðferðum mannfræði, heldur nýtir verkefnið sér aðferðir rannsóknarlistar (e. art-based research) til þess að skilja og miðla viðfangsefninu.
Hildur Gunnarsdóttir og Elsa Ævarsdóttir hlutu 500.000 kr. styrk til verkefnisins Húsnæði með opinberum stuðningi í 100 ár. Rannsóknin rýnir í þróun húsnæðis sem byggt hefur verið með stuðningi frá hinu opinbera síðustu öld og leitast er við að greina hvort stuðningurinn hafi stuðlað að auknum gæðum í híbýlaháttum á Íslandi og framþróun húsnæðis á hverjum tíma.
Kjartan Sveinn Guðmundsson hlaut 81.000 kr. styrk til þýðingar á bókinni Capitalist Realism e. Mark Fisher.
Kristín Svava Tómasdóttir hlaut 500.000 kr. styrk til þess að vinna að rannsókninni Vinnukonur í þéttbýli á Íslandi 1894–1945. Rannsóknin beinist að vinnukonum í íslensku þéttbýli frá 1894 til 1945. Markmiðið er að skoða hvernig það siðferðislega eftirlit sem fólst í vistarskyldunni í sveitasamfélagi fyrri tíma birtist í lífi kvenna sem störfuðu sem hjú á heimilum annarra í bæjum og þorpum nútímans. Í rannsókninni verður horft á heimilið sem kvennavinnustað sem einkenndist af flóknum valdatengslum vinnukvenna og húsmæðra.
Þóra Þorgeirsdóttir hlaut 500.000 kr. styrk til þess að vinna að rannsókninni Vellíðan starfsfólks í framlínuþjónustu hótela og veitingastaða: áhrif tilfinningavinnu, krafna í starfi og úrræða. Markmið rannsóknarinnar er að dýpka skilning á áhrifum tilfinningavinnu í störfum í framlínuþjónustu á hótelum og veitingastöðum í íslensku samfélagi og skoða tengsl við vellíðan starfsfólks.
Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.
Stjórn sjóðsins skipa: Finnbjörn A. Hermannsson, Grétar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir.