Vel heppnaður fræðsludagur

Fjölmargar fyrirspurnir komu úr sal og urðu úr góðar umræður út frá þessum erindum, sem öll voru alv…
Fjölmargar fyrirspurnir komu úr sal og urðu úr góðar umræður út frá þessum erindum, sem öll voru alveg frábær og þakkar félagið fyrirlesurunum fyrir þeirra framlag til fundarins.

Árlegur fræðsludagur Einingar-Iðju fyrir trúnaðarmenn, starfsmenn og aðra sem eru í trúnaðarstörfum fyrir félagið fór fram í gær, þriðjudaginn 15. október. Félagið er búið að halda dag sem þennan síðan 2010 á nokkrum stöðum um fjörðinn, en í ár fór hann fram í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit. Um 80 félagar tóku þátt í deginum sem tókst í alla staði mjög vel, en dagskráin var blanda af fyrirlestrum og hópavinnu.

Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara, byrjaði dagskrá með mjög góðu erindi um samfélagsmiðla og falsfréttir. Næst í pontu steig Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs Stapa lífeyrissjóðs, og fjallaði um lífeyrismál.

Eftir léttan hádegisverð sem veitingastaðurinn Strikið sá um var komið að Drífu Snædal, forseta ASÍ, en hún fjallaði m.a. um stöðuna varðandi kjaramálin í dag, skipulag verkalýðshreyfingarinnar, verkefnin framundan hjá ASÍ sem eru fjölmörg og breytingar á vinnumarkaði. Hún sagði líka frá rannsóknarstofnun í vinnumarkaðsfræðum sem ASÍ og BSRB hafa ákveðið að setja á fót til að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála.

Að loknu erindi Drífu var komið að Grétari Theódórssyni, almannatengli hjá Innsýn, sem fjallaði um hvernig ásýnd hreyfingarinnar var í samningunum í vetur. Næst var kynning á Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrenni, en þær Regína sem er sálfræðingur hjá KAON og Katrín hjúkrunarfræðingur sögðu frá félaginu og hvað þar væri í boði. Tveir ungir stjórnarmenn í aðalstjórn Einingar-Iðju tóku næst til máls, þau Sigurpáll og Guðbjörg, og fjölluðu um ungt fólk og stéttarfélög. Því næst komu tveir fulltrúar frá Grófinni – geðverndarmiðstöð og voru með kynningu á þeirra starfsemi. Þarna voru á ferð forstöðumaður Grófarinnar, Valdís Eyja Pálsdóttir sálfræðingur og Friðrik Einarsson stjórnarformaður Grófarinnar og einn af stofnendum miðstöðvarinnar.

Fjölmargar fyrirspurnir komu úr sal og urðu úr góðar umræður út frá þessum erindum, sem öll voru alveg frábær og þakkar félagið fyrirlesurunum fyrir þeirra framlag til fundarins.

Síðasti dagskrárliðurinn var hópavinna, en þá var öllum skipt upp í hópa þar sem teknar voru fyrir tvær spurningar í sambandi við fræðslu til félagsmanna. Niðurstöður dagsins verða svo nýttar þegar farið verður í rýnivinnu við endurskoðun á fræðslunni hjá ASÍ. Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ og Skólastjóri Félagsmálaskóla alþýðu, hafði yfirumsjón með hópavinnunni.

Frábær dagur með frábæru fólki!