Verðlag á matvöru hækkar um meira en hálft prósent þriðja mánuðinn í röð, samkvæmt mælingum Verðlagseftirlits ASÍ
Verðlag á dagvöru hækkaði um 0,61% milli mars og apríl samkvæmt dagvöruvísitölu ASÍ. Var það þriðji mánuðurinn í röð þar sem verðlag á matvöru hækkaði um meira en hálft prósent, sem er meðalhækkun á matvöru undanfarið ár og jafngildir 6% ársverðhækkun. Þó er útlit fyrir að hækkanirnar séu að dragast saman að magni og umfangi.
Áhrifin eru að mestu rekjanleg til tveggja þátta. Sá fyrri er hækkun á verðlagi innlendra vörumerkja, en það hefur frá áramótum hækkað mun hraðar en verðlag erlendra vörumerkja. Munurinn á hækkunartaktinum var mestur í janúar og febrúar.
Síðari þátturinn er slaknandi verðaðhald hjá Nettó og Kjörbúðinni, sem hafa haldið aftur af verðhækkunum frá miðju síðasta ári en hafa gefið eftir frá áramótum.
Verðlækkunin í fyrra hjá Nettó og Kjörbúðinni vegur á móti miklum hækkunum í byrjun þessa árs og er árshækkun hjá þessum tveimur keðjum því í lægri kantinum. Sú verslun sem hækkar mest á milli ára, og þar sem verðlag hækkaði um nær 11% milli janúar og apríl, er Iceland, sem tók í apríl fram úr 10-11 sem dýrasta verslun landsins. Hvorki Iceland né 10-11eru þó veigamiklar í dagvöruvísitölunni.
Grænir punktar hækka aftur
Hluta af hækkunum dagvöruvísitölunnar síðustu mánuði má rekja til verðbreytinga Kjörbúðarinnar. Í júlí 2024 var hluti af vörum Kjörbúðarinnar merktur með grænum punkti og lækkaður í verði, að meðaltali um 9%. Vörurnar áttu samkvæmt Kjörbúðinni að vera „á sambærilegu verði og í lágvöruverslun“. Undanfarna mánuði hefur verð á vörum sem voru merktar með græna punktinum farið hækkandi að nýju. Stærsta stökkið var upp um 11% í mars.
Í apríl hækkaði verð á öllum vörum í Kjörbúðinni að meðaltali um 1,6%.
Sumargrillið verður hratt dýrara
Verð á nautakjöti hefur hækkað hratt á þessu ári og hafa margar vörur í flokknum hækkað meira á þessu ári (janúar-maí 2025) en á átta mánuðunum þar á undan (maí-janúar 2024). Á grafinu hér að neðan eru birtar vörur í flokknum sem verðlagseftirlitið hefur gögn fyrir hjá Bónus og Krónunni aftur til maí í fyrra. Hækkunin í byrjun þessa árs vegur þungt — og hamborgarar fara ekki varhluta af því.
Einnig gæti orðið dýrara að bjóða upp á bernaise-sósu með steikinni. Verð á Stjörnueggjum hækkaði um 9% í maí. Vert er að benda á að verð á Nesbú-eggjum hefur hækkað hægar en uppsöfnuð árshækkun er engu að síður 6,5% að meðaltali í stærstu fjórum verslunarkeðjunum; Bónus, Krónunni, Hagkaup og Nettó.
Dregur úr hækkunum í maí
Þótt maímánuður sé ungur eru vísbendingar um að hækkunartakturinn í langstærstu verslunum, Bónus og Krónunni, sé að róast. Eftirfarandi graf ber saman hlutfall vara sem hækka í verði í Krónunni milli 8. maí og 8. apríl og svo koll af kolli 8. hvers mánaðar til undirritunar kjarasamninga. Í grafinu fyrir Bónus var stuðst við þá mælingu sem lá næst mánaðarmótum hverju sinni. Greinilegt er að breiðustu verðhækkanirnar komu til milli janúar- og febrúarmælinganna hjá báðum verslunum.
Þær hækkanir sem enn eiga sér stað eru því á mjórri grunni nú, þ.e. drifnar áfram af færri vörum. Af stærstu fjórum verslunum landsins er Nettó sú eina sem enn heldur uppi hækkunartakti síðustu tveggja mánaða.