Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, jafnréttisfulltrúi ASÍ, og Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og inngildingu hjá ASÍ, skrifa grein á Vísi í tilefni Kvennaverkfallsins á föstudaginn nk. og málþing sem ASÍ heldur sama dag undir yfirskriftinni: Nútíma kvennabarátta - Staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði.
„Ef Aðalheiðar nyti við í nútímanum myndi hún sjálfsagt beina tali sínu að konum af erlendum uppruna. Konum sem bera uppi grunnstoðir samfélagsins, starfa í ræstingum, við umönnun barna og aldraðra, eru á lægstu laununum, búa við mikið vinnuálag og hafa lítið bakland. Þær fá sjaldan tækifæri til stöðuhækkunar, verða oftar fyrir mismunun og áreitni, njóta ekki þeirrar fræðslu sem í boði er, né fá viðurkenningu á þeirri menntun sem þær oft hafa. Atvinnuþátttaka þeirra er meiri en íslenskra kvenna, þær vinna lengri vinnudag og eru síður í hlutastörfum. Innflytjendakonur búa við margar samfélagslegar hindranir.“