Vert er að minna enn og aftur á að Gallup er að kanna ýmis atriði sem snerta kjör, viðhorf og starfsaðstæður félagsmanna Einingar-Iðju og AFLS starfsgreinafélags. Á morgun, fimmtudaginn 20. nóvember, er lokadagur til að svara könnuninni.
Könnunin er jafnframt happdrættismiði því allir sem taka þátt geta unnið veglega vinninga.
Gallup sendi könnunina til félagsmanna sem lentu í úrtaki ársins með tölvupósti og/eða með sms-i. Ef einhver er ekki með netfang skráð hjá félaginu þá hringdi Gallup í viðkomandi.
Það er von félagsins að þeir sem valdir voru til þátttöku gefi sér tíma til að svara þegar leitað verður til þeirra því það er áríðandi að fá sem nákvæmastar niðurstöður og að allir svari svo hægt verði að nýta niðurstöðurnar í þágu þekkingar og til hagsbóta fyrir félagsmenn. Farið verður með öll svör sem fullkomið trúnaðarmál og mun Gallup annast alla gagnavinnslu og framkvæmd könnunarinnar, sjá nánar um persónuverndarstefnu Gallup inn á www.gallup.is
Niðurstöður eldri kannana má finna hér
Þátttakendur strax í happdrættispott!
Tuttugu heppnir þátttakendur, 10 frá hvoru félagi, voru dregnir út áður en könnun hófst og fá kr. 15.000 fyrir það eitt að svara. Vinningshafar fá tilkynningu um slíkt fljótlega eftir að búið er að svara könnuninni.
Auk þess verða dregnir út átta veglegir vinningar úr innsendum svörum að könnun lokinni. Tveir vinningar að upphæð kr. 150.000 og tveir kr. 50.000 auk fjögurra vikudvala í orlofsíbúðum félaganna.
Þín svör skipta máli – takk fyrir að taka þátt!
Með þátttöku þinni hefur þú áhrif á þjónustu og stefnu félagsins. Álit þitt skiptir okkur máli.