Grein eftir Vigdísi Jónsdóttur, forstjóra VIRK, sem birtist í ársriti VIRK 2025.
Árið 2024 var mjög annasamt ár í starfssemi VIRK. Aldrei hafa fleiri umsóknir þjónustu borist til VIRK og fjöldi nýrra einstaklinga í þjónustu á árinu 2024 er sá mesti frá upphafi.
2.371 einstaklingur hóf starfsendurhæfingu hjá VIRK á árinu 2024. Um er að ræða fjölgun um 3% milli áranna 2023 og 2024 en milli áranna 2020 og 2023 var aðsóknin nokkuð stöðug. Þessi fjölgun hefur síðan haldið áfram á árinu 2025 en um 16% fleiri einstaklingar hafa hafið þjónustu á fyrstu þremur mánuðum ársins 2025 samanborið við sama tíma í fyrra. Þegar þetta er skrifað eru um 2.940 einstaklingar í þjónustu hjá VIRK og hafa aldrei verið fleiri.
VIRK er núna að hefja sitt sautjánda starfsár. Margir þættir starfseminnar eru nokkuð stöðugir í dag en þó er óhætt að fullyrða að síðustu 17 ár hafa einkennst af stöðugri þróun og breytingum þar sem markmiðið er að stofnunin taki alltaf mið af þróun og samfélagslegum breytingum á hverjum tíma. Þetta gerir kröfur til mikils sveigjanleika og góðrar samvinnu við bæði samstarfsaðila um allt land og alla þá sem að VIRK standa.