Vert er að benda á eftirfarandi frétt, sem finna má á vinnan.is, þar sem segir að Félagsdómur hefur dæmt ferðaþjónustufyrirtækið Hvalvörðugilslæk ehf. til greiðslu sektar fyrir brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, eftir að starfsmanni var hótað uppsögn vegna stéttarfélagsaðildar.
Málið snéri að því að starfsmaður fyrirtækisins, sem hafði óskað eftir aðild að Verkalýðsfélagi Suðurlands, fékk send skilaboð frá eiganda fyrirtækisins þar sem honum var tjáð að hann myndi missa starf sitt héldi hann sig við þá ákvörðun. Nokkrum dögum síðar var honum sagt upp störfum án rökstuðnings.
Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði með framgöngu sinni brotið gegn a-lið 4. gr. laga nr. 80/1938 og gegn stjórnarskrárvörðum réttindum starfsmannsins. Dómurinn taldi ljóst að uppsögnin væri beintengd stéttarfélagsaðildinni og dæmdi fyrirtækið til að greiða 1,3 milljón króna sekt í ríkissjóð og 600 þúsund krónur í málskostnað.
Alþýðusamband Íslands lýsir yfir ánægju með niðurstöðuna og segir dóminn draga skýra línu um ófrávíkjanleg réttindi launafólks til að ganga í stéttarfélög. ASÍ hefur áður varað við því að tilhneiging sé víða til að grafa undan félagslegum réttindum starfsfólks, og telur að niðurstaða dómsins sé mikilvæg áminning um að slíkt verði ekki látið óátalið. Samtökin telja dóminn hafa almennt gildi og vonast til að hann leiði til aukinnar meðvitundar um mikilvægi félagslegra réttinda á vinnumarkaði.
Fréttaskýringaþátturinn Þetta helst á Rás 1 fjallaði um málið á síðasta ári. Þá umfjöllun má nálgast hér.
Hægt er að nálgast dóminn hér: Dómur/úrskurður