Vörukarfan hækkar milli mælinga

Verð hækkaði í öllum verslunum á milli mælinga verðlagseftirlitsins í maí (annarri viku) og júní (fj…
Verð hækkaði í öllum verslunum á milli mælinga verðlagseftirlitsins í maí (annarri viku) og júní (fjórðu viku) en sex vikur voru á milli mælinga.

Verð hækkaði í öllum verslunum á milli mælinga verðlagseftirlitsins í maí (annarri viku) og júní (fjórðu viku) en sex vikur voru á milli mælinga. Mest hækkaði vörukarfan hjá Super- 1 um 2,7% en minnst hækkaði hún hjá Tíu-ellefu og Krambúðinni um 0,1%. Verðhækkanir eru oftast um eða undir 1% en í 8 tilfellum af 10 eru þær 1,2% eða lægri. Grænmeti og ávextir hækkuðu mest í verði milli mælinga og má sjá töluverðar hækkanir í þeim vöruflokki milli mælinga í öllum verslunum nema í Krambúðinni. Kjötvörur hækka einnig í verði í nokkrum verslunum milli mælinga en þessir tveir vöruflokkar, grænmeti og ávextir ásamt kjötvörum eru þeir vöruflokkar sem sveiflast mest á milli mælinga. Þá hækka brauð og kornvörur í verði í nokkrum verslunum auk „ýmissa matvara“ og hreinlætis- og snyrtivara. Sykurvörur og sælgæti lækka mest í verði milli mánaða auk drykkjarvara sem lækka í öllum verslunum nema Super-1 og Hagkaup þar sem þær hækka.

Grænmeti, ávextir og kjötvörur hækka mest í verði

Mest hækkaði vörukarfan um 2,7% í Super-1. Í Kjörbúðinni hækkaði vörukarfan um 1,6% og í Samkaup-strax um 1,2%. Minnst hækkaði verð í 10-11 og Krambúðinni en þar nemur hækkunin 0,1%. Töluverðar verðhækkanir voru á grænmeti og ávöxtum í öllum verslunum nema Krambúðinni. Verðhækkanir á þessum liðum voru á sumum stöðum miklar og skýra  að hluta hækkun vörukörfunnar í sumum verslunum. Kjötvörur hækka einnig töluvert í verði á nokkrum stöðum. Verð á sykri og sælgæti stendur oftast í stað eða lækkar og þá lækka drykkjarvörur einnig í flestum tilfellum.

Mestar hækkanir hjá Super-1 af lágvöruverðsverslunum

Ef horft er til lágvöruverðsverslana hækkar vörukarfan mest hjá Super-1, 2,7%, sem skýrist að mestu af hækkun á grænmeti og ávöxtum um 7%, kjötvörum um 7% og drykkjarvörum um 8,7%. Aftur á móti lækkar brauð- og kornvara um 6% í Super-1 sem vegur lítillega á móti verðhækkunum á öðrum liðum. Af lágvöruverslunum var hækkun vörukörfunnar næst mest í Krónunni eða 1,1%. Þar var mest hækkun á hreinlætis- og snyrtivörum, 4%. Þar á eftir kemur verðhækkun á kjötvörum, 2,2% og hækkun á grænmeti og ávextir um 2%. Sykur og sælgæti lækkar aftur á móti um 2,5% og drykkjarvörur um 1,3%. Í Nettó hækka brauð- og kornvörur mest um 2,8% og grænmeti næst mest um 1,8% en lækkun á drykkjarvörum upp á 3,4% vegur mest upp á móti heildarhækkuninni sem nemur 0,8%. Í Bónus hækkar verð á grænmeti og ávöxtum um 5% auk þess sem kjötvörur hækka um 1,9% og hreinlætisvörur um 1,6%, sem skýrir að mestu 0,8% heildarhækkun á vörukörfunni í Bónus.

Mestar hækkanir hjá Kjörbúðinni af stórmörkuðum

Af stórmörkuðum hækkar verð mest í Kjörbúðinni, 1,6% en þar á eftir kemur Samkaup- strax með 1,2% hækkun og Hagkaup með 1,1% hækkun. Brauð og kornvörur hækka töluvert í Kjörbúðinni, 3,7% auk þess sem grænmeti og ávextir hækka um 6,2%. Í Samkaup strax hækka grænmeti og ávextir mest, 8,1%  og mjólkurvörur um 3% en drykkjarvörur vega upp á móti með 4% lækkun. Í Hagkaup eru hækkanir að mestu tilkomnar vegna hækkana á drykkjarvörum um 3,4% og grænmeti og ávöxtum 3%.

Um könnunina

Mælingar á vörukörfunni voru framkvæmdar vikurnar 6.- 12. maí og 24. júní -1. júlí.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.