Yfir 300 þúsund króna munur á leikskólagjöldum á ári

Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að almenn leikskólagjöld, 8 tímar með fæði, hækka mest hjá Seltjarnarnesbæ eða um 11% en sömu gjöld lækka um 3,7% í Mosfellsbæ. Í 10 af þeim 15 sveitarfélögum sem úttektin nær til hækka gjöldin um 2,4%-3,1%. Níundi tíminn hækkar mest í Hafnarfirði, um 98% eða 5.455 kr. og hækka gjöld fyrir 9 tíma vistun m. fæði í Hafnarfirði því um 16,6% eða um 6.488 kr. á mánuði. Níundi klukkutíminn lækkar mest í Mosfellsbæ, um 5%.
53% munur er á hæstu og lægstu almennu leikskólagjöldunum, 8 tímum með fæði, eða sem nemur 14.372 kr. á mánuði eða 143.720 kr. á ári miðað við 10 mánaða vistun. Lægstu gjöldin eru hjá Reykjavíkurborg en þau hæstu hjá Garðabæ. Sömu gjöld fyrir forgangshópa eru lægst í Reykjavík en hæst hjá Sveitarfélaginu Árborg. Almenn gjöld, 9 tíma vistun m. fæði, eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík. Fyrir forgangshópa eru gjöldin lægst í Reykjavík en hæst í Kópavogi.

Sjá nánar hér