- 88 stk.
- 21.06.2023
Hin árlega eins dags ferð fyrir eldri Einingar-Iðjufélaga var farin í gær, þriðjudaginn 20. júní. Um 100 félagsmenn og makar lögðu af stað í tveimur rútum frá Akureyri um kl. 9:00 og var ekið sem leið lá vestur í Húnavatnssýslur. Farið var um fremri Blöndubrúna, Svínadal og Reykjabraut, Vatnsdalshringurinn og að Þingeyrum þar sem kirkjan var skoðuð. Þaðan var farið um Blönduós til Kálfshamarsvíkur þar sem var stoppað, gengið um svæðið að vitanum og áfram fyrir Skaga til Sauðárkróks og Varmahlíðar áður en haldið var yfir Öxnadalsheiði og heim á ný.
Snæddur var hádegisverður á Hótel Blönduósi og kaffi drukkið í Skagafirði, í Miðgarði.
Frábærir leiðsegjendur voru í ferðinni, þau Bragi Guðmundsson og Kristín Sigurrós Einarsdóttir.