Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Mynd tekin á trúnaðarmannanámskeiði. Félagsmálaskóli alþýðu sér um námskeiðin, en hann er starfræktu…
Mynd tekin á trúnaðarmannanámskeiði. Félagsmálaskóli alþýðu sér um námskeiðin, en hann er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. MFA, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, fer með rekstur og málefni skólans.

Trúnaðarmenn Einingar-Iðju eru mikilvægir hlekkir í starfi félagsins. Samkvæmt samningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa 5 eða fleiri félagsmenn. Þar sem starfa fleiri en 50 eiga að vera 2 trúnaðarmenn. Ef það er ekki trúnaðarmaður á þínum vinnustað hafðu þá samband við Einingu-Iðju og við setjum upp vinnustaðafund til að kjósa trúnaðarmann.

Við kosningu öðlast trúnaðarmaður um leið sérstaka lagalega vernd í starfi sínu, fær umboð félagsins til að fara með mál annarra og verður fulltrúi þess á vinnustaðnum. Meginhlutverk trúnaðarmanna er að gæta þess að lög og samningar séu haldnir á vinnustaðnum og vera tengiliður starfsmanna við stéttarfélagið.

Öflug trúnaðarmannafræðsla er mikilvæg fyrir trúnaðarmenn, stéttarfélagið og atvinnurekendur. Það reynir oft á trúnaðarmenn í starfi og þess vegna hefur félagið ávallt kappkostað að bjóða þeim uppá fyrsta flokks fræðslu. Trúnaðarmenn eiga samningsbundinn rétt til að sækja þessi námskeið án launaskerðingar en þurfa að sjálfsögðu að sækja námskeiðin í samráði við sinn yfirmann.

Félagið hvetur trúnaðarmenn til að fylgjast vel með þegar námskeið eru haldin og vera dugleg að mæta á þau. Hægt er að skrá sig á trúnaðarmannanámskeið með því að senda póst á ein@ein.is eða hringja í 460 3600.

Hvað þarf trúnaðarmaður að hafa til að bera?
Góður trúnaðarmaður þarf fyrst og fremst að hafa áhuga á vellíðan og starfsöryggi félaga sinna. Hann þarf að vera vakandi fyrir vinnuumhverfinu og eiga auðvelt með mannleg samskipti, hafa ríka réttlætiskennd, eiga auðvelt með samstarf og vera óhræddur við að axla ábyrgð.

Þeir sem sinnt hafa trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög þekkja það að sú reynsla nýtist þeim ekki síður vel í daglegu lífi jafnt sem starfi. Þekking á málefnum starfsmanna, leikni í mannlegum samskiptum og reynsla af samstarfi við lausn verkefna er mjög verðmæt.

Trúnaðarmaður er bundinn þagnarskyldu gagnvart félagsmönnum.